Minkur Þessi minkur spókaði sig áhyggjulaus í húsagarði á Seltjarnarnesi.
Minkur Þessi minkur spókaði sig áhyggjulaus í húsagarði á Seltjarnarnesi. — Ljósmynd/Sólveig Þórhallsdóttir
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is „Við höfum orðið vör við þetta og sjáum hann á vorin, við heyrum líka af honum reglulega,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi í samtali við Morgunblaðið, en fregnir hafa borist af vaxandi minkaplágu í bænum.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Við höfum orðið vör við þetta og sjáum hann á vorin, við heyrum líka af honum reglulega,“ segir Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri á Seltjarnarnesi í samtali við Morgunblaðið, en fregnir hafa borist af vaxandi minkaplágu í bænum.

Hafa minkar verið að gera sig heimakomna við íbúðarhús, en einnig herjað á fugla, en mikið fuglalíf er í Gróttu og varptíminn fer nú í hönd.

Þegar vart verður við mink er meindýraeyði sem bærinn er með þjónustusamning við gert viðvart og bregst hann strax við ábendingum, að sögn Þórs.

Hann segir að mun fleiri gildrur séu í bænum en áður.

„Í fyrra sumar veiddust nokkrir minkar í bænum og ég ætla að láta halda utan um veiðitölurnar í sumar og birta þær reglulega svo hægt sé að fylgjast með því hvernig þetta vinnst,“ segir Þór.

„Við bregðumst strax við þegar við fáum vitneskju um mink og hvetjum fólk til að láta okkur vita um leið og það verður hans vart. Við erum bæði með ábendingagátt á heimasíðunni og síðan eru stuttar boðleiðir hér í bænum, þannig að það er auðvelt að láta okkur vita. Við hringjum þá beint í meindýraeyðinn,“ segir Þór.

Guðmundur Björnsson hefur með meindýraeyðingu að gera í bænum segist verða var við vaxandi minkaplágu í bænum. Hvort meira sé af mink nú en áður segir hann óljóst, en fólk verði minks meira vart en áður, hann sé að koma meira inn í hverfin en áður.

„Hann hefur verið að koma inn í húsagarða,“ segir Guðmundur.

Guðmundur er með gildrur sem hann vitjar um reglulega, en gildrurnar eru sautján talsins og eru þegar farnar að gefa. Í fyrra veiddust á annan tug minka, allt fullorðin dýr. Flestir minkarnir veiðast í nágrenni golfvallarins og úti í Gróttu. Í síðustu vitjun um gildrurnar segir Guðmundur að tveir minkar hafi verið í þeim. Fleiri minka er þar von og þá ekki síst þegar hvolparnir fara á stjá.