Jóel Halldór Jónasson fæddist 26. október 1944. Hann lést 16. mars 2024.

Útför hans fór fram 27. mars 2024.

Elsku Jói frændi. Nú ert þú kominn í Sumarlandið til ömmu og afa, Birgis frænda og pabba. Þið hafið nú nóg að gera á þessum árstíma, sauðburður fljótlega að byrja og síðan þau störf sem fylgja komandi sumri.

Mig langar aðeins að minnast þín eins og ég man þig. Ég man nú frekar lítið eftir þér frá því þegar ég bjó á Klungurbrekku, man aðeins eftir Jóa frænda í sjón, enda var ég nú miklu uppteknari af frændsystkinum mínum þegar einhver hittingur var.

Ein er minning frá Lundi þegar ég var unglingur. Þú komst í bæjarferð og fórst út á lífið um kvöldið. Deginum eftir varstu frekar þögull og um kvöldið var horft á fréttir eins og venja var. Við Inga systir vorum með einhver læti og þú hastaðir á okkur. Mér brá mikið því í mínum huga varst þú alltaf svo blíður og góður. Þú tókst eftir þessu og baðst okkur að fyrirgefa þér, þér væri bara svo illt í hausnum. Þetta atvik lýsir þér svo vel elsku Jói, enda fékkstu viðurnefnið „góði frændi“ frá mér. Birgir og Mundi fengu önnur.

Fleiri minningar koma upp í hugann. Heimsóknir á Bílduhól að sumri til. Eitt skipti er sérstaklega minnisstætt. Ég kem óboðin með Baldri, þáverandi mínum, og Rakel dóttur okkar. Þar eru þá komin mamma og pabbi, Birgir og Veiga og Lilja og Helgi, ásamt fleirum. Það var nú ekki mikið mál að taka á móti fleiri gestum og borinn í okkur matur eins og við værum heiðursgestir. Um kvöldið var síðan þessi hefðbundni siður í þessari fjölskyldu sem var að syngja saman fram á rauðanótt. Ég kom líka nokkrum sinnum við þegar ég var á leið til Reykhóla og það var alltaf sama sagan. Ég drifin inn í þvílíkt kaffi og meðlæti frá Halldísi.

Þegar Björk og Reynir voru skírð plötuðuð þú og pabbi mig til að leysa þig af sem kokkur á togaranum sem þú varst á. Enn í dag man ég eftir þessu ævintýri. Fyrstu tvo dagana hélt ég að ég myndi deyja úr sjóveiki, en svo var þetta algjörlega æðislegt … ég steig ölduna eins og aldagamall sjómaður að mínu mati og enn í dag man ég hvað ég þénaði mikið og ekki síður hvað þú varst stoltur af mér þegar ég kom í land.

Minningarnar eru miklu fleiri, en ég ætla nú að láta staðar numið og kveðja þig í bili elsku Jói frændi. Við sjáumst síðar í Sumarlandinu góða.

Ég sendi Halldísi og öllum í fjölskyldunni mínar allra bestu samúðarkveðjur og bið góðan Guð að vaka yfir ykkur öllum.

Guðrún Lára Baldursdóttir (Rúna).