Landskjörstjórn boðaði til fundar í gærmorgun á Þjóðminjasafni Íslands og kynnti þar úrskurð sinn um gildi framboða til forsetakosninganna sem fara fram 1. júní næstkomandi. Alls töldust ellefu framboð vera gild

Iðunn Andrésdóttir

idunn@mbl.is

Landskjörstjórn boðaði til fundar í gærmorgun á Þjóðminjasafni Íslands og kynnti þar úrskurð sinn um gildi framboða til forsetakosninganna sem fara fram 1. júní næstkomandi. Alls töldust ellefu framboð vera gild.

Þrettán frambjóðendur höfðu skilað inn meðmælendalistum til landskjörstjórnar en framboð Viktors Traustasonar og Kára Vilmundarsonar Hansen reyndust ógild.

Í samtali við Morgunblaðið sagði Kristín Edwald formaður landskjörstjórnar að aðeins níu meðmælendur hefðu fylgt öðru framboðinu. Í hinu, þar sem meðmælendalistarnir voru á pappír, var ekki í neinu tilfelli getið um lögheimili og í sumum tilfellum ekki um kennitölu, eins og ófrávíkjanleg skilyrði eru um í lögum. Þar að auki hefði skort verulega á að tilskildum fjölda meðmælenda væri náð.

Viktor og Kári fengu 20 klukkustunda kærufrest í gær. Lýsti Viktor því yfir í gærkvöldi að hann hygðist kæra úrskurðinn.

Allt slegið inn

Aðspurð segir Kristín að mikið hafi mætt á starfsfólki landskjörstjórnar að undanförnu, bæði í ljósi fjölda frambjóðenda og þess að slá þurfti inn allar undirskriftir sem voru á pappír.

Flestir frambjóðendur hafa þegar hafið ferðalög um landið til að kynna framboð sitt fyrir þjóðinni en mikil hreyfing er á fylgi efstu frambjóðenda líkt og Morgunblaðið greindi frá í gær.

Höf.: Iðunn Andrésdóttir