Sæluvika Árni Björn Björnsson tók við Samfélagsverðlaunum hans og Ragnheiðar Ástu Jóhannsdóttur úr hendi Eyrúnar Sævarsdóttur.
Sæluvika Árni Björn Björnsson tók við Samfélagsverðlaunum hans og Ragnheiðar Ástu Jóhannsdóttur úr hendi Eyrúnar Sævarsdóttur. — Morgunblaðið/Björn Björnsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Árleg Sæluvika Skagfirðinga var sett í Safnahúsinu sl. sunnudag við athöfn sem Sigfús Ólafur Guðmundsson stýrði. Fyrst kynnti Eyrún Sævarsdóttir þennan árlega viðburð sem lengi hefur haldið á lofti gleði- og menningarlífi Skagfirðinga, en síðan…

Björn Björnsson

Sauðárkróki

Árleg Sæluvika Skagfirðinga var sett í Safnahúsinu sl. sunnudag við athöfn sem Sigfús Ólafur Guðmundsson stýrði.

Fyrst kynnti Eyrún Sævarsdóttir þennan árlega viðburð sem lengi hefur haldið á lofti gleði- og menningarlífi Skagfirðinga, en síðan afhenti hún Samfélagsverðlaun sveitarfélagsins sem að þessu sinni komu í hlut hjónanna Ragnheiðar Ástu Jóhannsdóttur og Árna Björns Björnssonar fyrir margvíslega og frábæra aðkomu þeirra að ýmsum og margvíslegum samfélagsverkefnum í sveitarfélaginu.

Jón með besta botninn

Nemendur úr Tónlistarskóla Skagafjarðar léku nokkur lög á píanó, en síðan kynnti Sigríður Garðarsdóttir úrslit úr Vísnakeppni Safnahússins. Þar hlaut Jón Gissurarson viðurkenningu fyrir besta botninn og Ólöf Þóra Steinólfsdóttir frá Fagradal átti bestu forsetavísuna.

Sólborg U. Pálsdóttir skjalavörður opnaði sýningu á ljósmyndum og málverkum Stefáns B. Pedersen, ljósmyndara og fjöllistamanns, en hann var sá fyrsti sem hlaut Samfélagsverðlaun Skagafjarðar árið 2016.

Kirkjukvöld Sauðárkrókskirkju fór fram í gærkvöldi þar sem ræðumaður var Óli Björn Kárason þingmaður. Framundan eru ýmsir fleiri viðburðir á Sæluviku, s.s. sýning Leikfélags Sauðárkróks á Litlu hryllingsbúðinni, listsýningar og söngskemmtanir.

Fyrri partur vísu sem þurfti að botna var:

Stjórnvaldanna þrenning þrá

þreyir ennþá völdin.

Verðlaunabotn Jóns var:

Hún með snilli knæf og kná,

kemst á söguspjöldin.