— AFP/Luis Tato
Að minnsta kosti 45 létu lífið þegar stífla brast nálægt þorpi í vesturhluta Keníu í gærmorgun. Alls hafa yfir 120 manns látið lífið í landinu af völdum skriðufalla og vatnavaxta frá því regntímabilið hófst í mars

Að minnsta kosti 45 létu lífið þegar stífla brast nálægt þorpi í vesturhluta Keníu í gærmorgun. Alls hafa yfir 120 manns látið lífið í landinu af völdum skriðufalla og vatnavaxta frá því regntímabilið hófst í mars. Úrkoma í austurhluta Afríku hefur verið með mesta móti í vor og er það rakið til El Nino-veðurfyrirbærisins.

Íbúar sögðu að stíflan hefði brostið eldsnemma í gærmorgun ofan við þorpið Kamuchiri í Nakuru-héraði. Vatn flæddi niður hlíð og hreif með sér hús og bíla. Björgunarfólk gróf í gær í leðjuna í von um að finna fólk á lífi. Á meðfylgjandi mynd sést stúlka við hlið bíls sem grafist hefur í leðju.

Monsúnrigningar hafa einnig valdið miklum flóðum og skriðuföllum í nágrannaríkinu Tansaníu þar sem að minnsta kosti 155 hafa látið lífið. Í fleiri löndum, svo sem Eþíópíu, Úganda og Búrúndí, hefur fólk látið lífið af völdum flóða.