Markaðssetning Lilja D. Alfreðsdóttir segir að sækja þurfi fram til að tryggja þann árangur sem hefur náðst.
Markaðssetning Lilja D. Alfreðsdóttir segir að sækja þurfi fram til að tryggja þann árangur sem hefur náðst. — Morgunblaðið/Eyþór
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ólafur Pálsson olafur@mbl.is Nauðsynlegt er að stjórnvöld hefji neytendamarkaðssetningu í ferðaþjónustu á ný og að þar verði vörumerkið Ísland samkeppnishæft.

Viðtal

Ólafur Pálsson

olafur@mbl.is

Nauðsynlegt er að stjórnvöld hefji neytendamarkaðssetningu í ferðaþjónustu á ný og að þar verði vörumerkið Ísland samkeppnishæft.

Þetta segir Lilja D. Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, en forkólfar í ferðaþjónustu hafa lýst áhyggjum sínum af samkeppnisstöðu landsins. Frá og með mars á síðasta ári hefur aðeins 100 milljónum króna verið varið til neytendamarkaðssetningar og í fyrirliggjandi fjármálaáætlun fyrir árin 2025-2029 er ekki gert ráð fyrir umtalsverðri fjárfestingu til neytendamarkaðssetningar.

Lilja hefur áætlanir um að auka fyrirsjáanleika í ferðaþjónustu með því að veita fjármagn í neytendamarkaðssetningu með markvissum hætti á ný í gegnum fjármálaáætlun. Árlega fari opinbert fé í þá fjárfestingu líkt og þekkist í ríkjunum í kringum okkur en síðan þurfi að bæta í og auka við fjármögnun að hennar mati.

Ný ferðamálastefna

Um miðjan apríl lagði ráðherra fram þingsályktunartillögu um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030. Segir Lilja nýja ferðamálastefnu ramma allt sem tengist atvinnugreininni miklu betur inn. Stefnan hafi verið mótuð ásamt grasrót ferðaþjónustunnar og með leiðandi fólki innan greinarinnar.

Þar segir að bæði þurfi að viðhalda og koma á framfæri ímynd og orðspori Íslands sem leiðandi ríkis í sjálfbærri þróun og sem eftirsóknarverðs áfangastaðar. Þá segir að tryggt verði, í gegnum fimm ára fjármálaáætlun, að árlega fari opinbert fjármagn til neytendamarkaðssetningar í ferðaþjónustu.

920 milljarða króna velta

Ferðaþjónustan veltir um 920 milljörðum króna á ári. Heildarskattspor greinarinnar er áætlað að minnsta kosti 220 milljarðar á þessu ári nema til komi fækkun ferðamanna. Með tilkomu ferðaþjónustu hefur orðið algjör viðsnúningur á viðnámsþrótti hagkerfisins. Ísland hefur farið úr gjaldeyrisforða að láni yfir í óskuldsettan forða sem í dag er um 800 milljarðar króna sem jafngildir um 20% af landframleiðslu.

Þannig segir ráðherra að gjörbreyting hafi orðið á íslensku atvinnulífi. „Allt í einu kemur gríðarlegt magn erlends gjaldeyris í gegnum þjónustujöfnuðinn sem skyndilega er orðinn jákvæður og gengi krónunnar orðið stöðugt því gjaldeyrismarkaðurinn hefur dýpkað mikið.“ Lilja segir að nálgast þurfi atvinnugreinina af þeirri fagmennsku sem hún eigi skilið.

Lilja segir fyrirliggjandi fjármálaætlun gera ráð fyrir nýjum 200 milljónum króna á ári í tengslum við ferðamálastefnuna og að hluti þess fjármagns muni fara í neytendamarkaðssetningu. Hún segir menningar- og viðskiptaráðuneytið vinna ásamt Íslandsstofu og Ferðamálastofu að skipulagðri hugmyndavinnu sem snúi m.a. að neytendamarkaðssetningu.

Einnig hafi verið unnið með margs konar hætti að málefnum ferðaþjónustunnar innan ráðuneytisins, til að mynda standi þróun álagsstýringar yfir og ráðuneytið hafi látið gera nýtt þjóðhagslíkan sem muni reynast vel í vinnunni fram undan við að tryggja og festa Ísland í sessi sem áfangastað.

„Verðum að sækja fram“

Ráðherra segir unnið að því að hefja neytendamarkaðssetningu á ný og þar þurfum við að bera okkur saman við önnur ríki.

„Við erum að átta okkur á því við hverja við erum í samkeppni, hvað þeir séu að gera og hver hættan sé á að við missum frá okkur ferðamenn. Við verðum að vera samkeppnishæf og verðum að sækja fram til að tryggja þann árangur sem hefur náðst,“ segir Lilja.

Ferðamálastefna

Lögð verði áhersla á aukna framleiðni, verðmætasköpun og samkeppnishæfni sem og markvissa sókn á verðmæta markaði og markhópa.

Markviss viðvarandi markaðssetning á að viðhalda og koma á framfæri ímynd og orðspori Íslands.

Árleg fjármögnun tryggð í gegnum fimm ára fjármálaáætlun.

Höf.: Ólafur Pálsson