Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur grynnra kvikuhólfið undir Svartsengi komið að þolmörkum. Gæti framleiðni gossins við Sundhnúkagígaröðina aukist úr þremur rúmmetrum á sekúndu í sex rúmmetra á næstu dögum, að sögn Þorvaldar, sem tekur þó fram að einungis sé um kenningu að ræða

Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur telur grynnra kvikuhólfið undir Svartsengi komið að þolmörkum. Gæti framleiðni gossins við Sundhnúkagígaröðina aukist úr þremur rúmmetrum á sekúndu í sex rúmmetra á næstu dögum, að sögn Þorvaldar, sem tekur þó fram að einungis sé um kenningu að ræða.

Magn kviku sem bæst hefur við kvikuhólfið frá því að eldgosið hófst 16. mars er tíu milljónir rúmmetra. Eru nú merki um að dregið hafi úr hraða landrissins við Svartsengi, sem hefur verið undanfari kvikuhlaups fram til þessa.

„Þá má fara að búast við að eitthvað gerist,“ segir Þorvaldur, sem telur þó kvikuhlaup ekki endilega einu mögulegu útkomuna.

Þannig komi einnig til greina að grynnra kvikuhólfið undir Svartsengi einfaldlega fyllist og sitji fullt, án þess að til kvikuhlaups komi, og að kvikan frá dýpra kvikuhólfinu renni beint upp til yfirborðs, án viðkomu í því grynnra.

Ætti því meiri kvika að koma upp á yfirborðið, en kenning jarðvísindamanna um þessar mundir er sú að kvikan renni annars vegar í grynnra kvikuhólfið og hins vegar til yfirborðs, þ.e. aðeins hluti hennar velli nú upp úr gígnum.

Einnig gæti þó komið til þess að grynnra kvikuhólfið tæmdi sig. Myndi þá kvikan að líkindum einnig leita upp til yfirborðs í gegnum gosrásina sem nú er virk. Ef magn kvikunnar sem rennur í gegnum gosrásina ykist gæti verið að nýir gígar opnuðust og núverandi gígakerfi stækkaði.