Drjúgur Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur í stórsigrinum á Val með 24 stig fyrir Njarðvík, auk þess sem hann tók sjö fráköst.
Drjúgur Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur í stórsigrinum á Val með 24 stig fyrir Njarðvík, auk þess sem hann tók sjö fráköst. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valsmenn sáu aldrei til sólar þegar liðið tók á móti Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í gær. Leiknum lauk með stórsigri Njarðvíkur, 105:84, en Dwayne Lautier-Ogunleye átti stórleik fyrir…

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Valsmenn sáu aldrei til sólar þegar liðið tók á móti Njarðvík í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Hlíðarenda í gær.

Leiknum lauk með stórsigri Njarðvíkur, 105:84, en Dwayne Lautier-Ogunleye átti stórleik fyrir Njarðvík og skoraði 24 stig, tók sjö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar í leiknum.

Njarðvík, sem hafnaði í fimmta sæti deildarinnar, er því komið í 1:0 í einvíginu gegn Val en Valsmenn höfnuðu í efsta sæti deildarinnar og eru ríkjandi deildarmeistarar.

Njarðvíkingar gáfu tóninn strax í fyrsta leikhluta þar sem þeir skoruðu 28 stig gegn 18 stigum Valsmanna. Njarðvíkingar juku forskot sitt enn frekar í öðrum leikhluta þar sem þeir skoruðu 26 stig gegn 22 stigum Vals og var staðan 54:40, Njarðvík í vil, í hálfleik.

Njarðvíkingar byrjuðu síðari hálfleikinn líkt og þann fyrri og skoruðu 28 stig í honum gegn 22 stigum Valsmanna. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 82:60, Njarðvík í vil. Valsmenn voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta og Njarðvíkingar fögnuðu öruggum stórsigri í leikslok.

Dominykas Milka átti stórleik fyrir Njarðvík og skoraði 19 stig, tók 13 fráköst og gaf fjórar stoðsendingar en fyrirliðinn Kristófer Acox var stigahæstur Valsmanna með 19 stig, níu fráköst og eina stoðsendingu. Taiwo Badmus skoraði 17 stig fyrir Val, tók sjö fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Fyrsti leikur í Smáranum

Annar leikur liðanna fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík á föstudaginn, 3. maí, en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu þar sem Valsmenn hafa verið undanfarin tvö tímabil.

Í hinu undanúrslitaeinvíginu mætast svo Grindavík og Keflavík. Grindavík hafnaði í öðru sæti deildarkeppninnar á meðan Keflavík hafnaði í þriðja sætinu og Grindavík er því með heimavallarréttinn í einvíginu.

Fyrsti leikur liðanna fer fram í Smáranum í Kópavogi, heimavelli Grindvíkinga þar sem íþróttahúsið í Grindavík er ekki nothæft vegna jarðhræringanna á Reykjanesskaganum, í kvöld.