Lærdómurinn hér er að skynsamlegt er að byrja sem fyrst að leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað, bæði til að nýta sér mótframlag vinnuveitenda svo og að freista þess að ávöxtun yfir tímann skili sem hagstæðastri niðurstöðu

Viðbótarlífeyrissparnaður

Hjörleifur Arnar Waagfjörð

Forstöðumaður eignastýringar fagfjárfesta hjá Arion banka

Sumarið 1996 steig sá sem þetta ritar sín fyrstu alvöru skref á íslenskum vinnumarkaði. Þá að eigin mati á fullorðinsaldri, vel sautján ára gamall. Ökuskírteinið var í höfn, fjárfest hafði verið í fyrsta bílnum, framhaldsmenntun í augsýn, fjárhagslegt sjálfstæði orðið meira og nægur tími til stefnu til að njóta alls þess sem lífið hafði upp á að bjóða.

Augnablikið þá var vissulega það sem skipti mestu máli og ég taldi nægan tíma síðar til að búa í haginn fyrir framtíðina. Fyrirkomulag lífeyrismála var svo sannarlega fjarri því sem hugur stóð til á þeim tíma. Föður mínum varð þó tíðrætt um í eyru unga mannsins, þegar slíku fyrirkomulagi var komið á nokkrum árum síðar, að eitthvað sem héti viðbótarlífeyrisparnaður væri skynsamlegt að greiða hluta af launum sínum í og fá mótframlag vinnuveitanda á móti. Best væri að byrja sem fyrst þannig að sparnaðurinn yrði að endingu sem mestur. Þrátt fyrir að á þeim tíma hafi hugtakið viðbótarlífeyrisparnaður þótt framandi, óþarfi og jafnvel leiðinlegt fór ungi maðurinn eftir gefnum ráðleggingum.

Að því er sýnist augnabliki síðar, eða að vísu nærri þrjátíu árum, tólf bílum, þremur börnum, tveimur hundum, einum ketti, framhaldsmenntunum, nokkrum vinnustöðum, ferðalögum og búsetu víðsvegar um heiminn, kominn á miðjan aldur fjörutíu og fimm ára þá þakka ég kærlega föður mínum fyrir þessa ráðleggingu.

Gegnum tíðina hefur safnast veruleg upphæð í þessum sparnaði þar sem byrjað var snemma, uppsöfnuð ávöxtun yfir lengra tímabil vegur þungt og sparnaðurinn hefur að auki nýst til að greiða inn á húsnæðislán.

Frá upphafi sparnaðar til dagsins er í dag er nú liðinn lengri tími, eða um 25 ár, heldur lengri en gera má ráð fyrir að sé í starfslok, sem gæti verið um 15-25 ár, eftir því hvernig vindar blása. Ef ævin verður svo styttri heldur en væntingar standa til er sparnaðurinn erfanlegur.

Komdu með, ungi maður

Áhrif tímans geta vegið þungt í sparnaði til lengri tíma. Ef við gefum okkur til einföldunar tilbúið dæmi, þrjá einstaklinga sem byrja á mismunandi aldri að greiða í viðbótarlífeyrissparnað, 17, 27 og 37 ára, sem öll hafa um 500.000 kr. í laun á mánuði til 70 ára aldurs, greiða í viðbótarlífeyrisparnað 4% og fá mótframlag frá vinnuveitanda um 2%, ávöxtun sé 3,5% á ári, þá er ljóst að mikill munur er á endanlegri upphæð við dæmigerðan úttektaraldur.

Einstaklingurinn sem er 17 ára ætti við 70 ára aldur um 54,4 milljónir króna, þar sem greiðslur hans nema um 12,7 milljónum króna, mótframlag vinnuveitanda hans nemur um 6,4 milljónum króna og ávöxtun um 35,3 milljónum króna.

Einstaklingurinn sem er 27 ára ætti samsvarandi um 35,5 milljónir króna, þar sem greiðslur hans nema 10,3 milljónum króna, mótframlag vinnuveitanda hans nemur 5,2 milljónum króna og ávöxtun um 20 milljónum króna.

Einstaklingurinn sem er 37 ára ætti um 22,1 milljón króna, þar sem greiðslur hans nema um 7,9 milljónum króna, mótframlag vinnuveitanda hans nemur um 4,0 milljónum króna og ávöxtun um 10,2 milljónum króna.

Lærdómurinn hér er að skynsamlegt er að byrja sem fyrst að leggja til hliðar í viðbótarlífeyrissparnað, bæði til að nýta sér mótframlag vinnuveitenda svo og að freista þess að ávöxtun yfir tímann skili sem hagstæðastri niðurstöðu. Að auki býðst nú einstaklingum að nýta viðbótarsparnað sinn skattfrjálst sem útborgun við kaup á fasteign og sem greiðslu inn á lán.

Gott kvöld, gamli maður

Óháð okkar augnablikum, stuttum sem löngum, þá er það óumflýjanlegt að tíminn líður og oft hraðar en búist er við.

Fyrir þau sem ekki nýta sér viðbótarsparnað í dag og/eða eiga börn sem eru mögulega að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði þá hvetur undirritaður fólk til að kynna sér þetta sparnaðarform, benda börnum sínum á þennan góða kost og svo að endingu að hefja sparnaðinn sem allra fyrst. Bæði til þess að sparnaðurinn verði sem veigamestur yfir tíma, að hámarkað sé það viðbótarframlag sem kemur frá launagreiðanda, til að minnka launatap við starfslok og/eða til þess að gefa sér aukið svigrúm til sveigjanlegra starfsloka þegar þar að kemur.