Sigtryggur Rúnar Ingvason fæddist á fæðingarheimilinu í Reykjavík 2. nóvember 1970. Hann lést á heimili sínu 4. desember 2023.
Móðir hans er Hafalda Breiðfjörð Arnarsdóttir og faðir Ingvi Sveinsson. Hann var elstur þriggja systkina en systur hans eru Jórunn Arna Þórsdóttir, f. 5. nóvember 1975 og Sæunn Klara Breiðfjörð, f. 1. ágúst 1980. Sigtryggur Rúnar eignaðist þrjú börn með unnustu sinni, Ingu Jónu Ingimundardóttur. Sonur þeirra er Tristan Máni Sigtryggsson, f. 20. júní 2003, dætur Sylvía Eik Sigtryggsdóttir, f. 16. nóvember 2005 og Diljá Dís Sigtryggsdóttir, f. 15. maí 2007.
Útför hans fór fram í kyrrþey 18. desember 2023.
Elsku sonur. Við minnumst þín með sorg og söknuð í hjarta. Þú varst hraustur allt frá upphafi, mikill grallari með koparrautt hár sem varð dekkra með aldrinum. Þú varst sjálfstæður og fórst þínar eigin leiðir enda vissir þú alveg hvað þú vildir fá út úr lífinu og hvernig átti að nálgast það. Þú keyptir þér þinn fyrsta bíl 15 ára gamall og fórst þínar leiðir próflaus. Bíllinn var fluttur til landsins og var gulbrúnn BMW 20 með 2L vél. Eflaust má segja að þessi fyrstu bílakaup hafi lýst þér nokkuð vel og hversu ákveðinn þú gast verið þegar þú vildir eitthvað.
Þú varst okkur Ásgeiri mikill stuðningur síðustu árin og við deildum saman áhuga á fótbolta. Það voru ófá skiptin sem þú komst til okkar og horfðir á leikinn með okkur. Þú varst alla tíð afar tryggur þínu liði sem var Arsenal og ekkert fékk því breytt. Það var því tilhlökkunarefni fyrir okkur á þessum bæ þegar Arsenal var að leika, því þá vissum við að von væri á þér í heimsókn. Þú sagðir ekki margt og tókst á við þínar áskoranir í hljóði. Við vissum því lítið um þitt líf, en vissum þó að það sem skipti þig mestu máli voru börnin þín þrjú, hamingja þeirra og árangur í lífinu.
Þú varst ávallt duglegur og tilbúinn til að rétta hjálparhönd þegar á þurfti að halda. Þú varst fljótur að tileinka þér nýja hluti og varst afar laghentur, enda ófá hús sem þú innréttaðir af tærri snilld. Smíði var þér í blóð borin og þú varst með afar gott auga fyrir hönnun. Þú kláraðir allt sem þú byrjaðir á og stóðst við þitt. Þú varst handlaginn og það verður aldrei frá þér tekið elsku sonur.
Eflaust varstu verstur sjálfum þér og áttir erfitt með að biðja um hjálp. Þú varst afar stoltur ungur maður en um leið byggðir þú múr í kringum þig, faldir sársauka þinn og áhyggjur sem á endanum varð til þess að þú ákvaðst að kveðja. Sagan þín endaði allt of fljótt, allt of snöggt. Eftir sitja margar spurningar og erfiðar tilfinningar en um leið ófáar minningar sem ég og Ásgeir eigum með þér. Við kveðjum þig með miklum söknuði.
Æviskeið mitt, ungi vinur,
ætla má að styttist senn.
Harla fátt af fornum dómum
fullu gildi heldur enn.
Endurmeti sínar sakir
sá er dæmir aðra menn.
Aldrei skaltu að leiðum lesti
leita í fari annars manns,
Aðeins grafa ennþá dýpra
eftir bestu kostum hans.
Geymdu ekki gjafir þínar
góðum vini í dánarkrans.
(Heiðrekur Guðmundsson)
Hvíl í friði hjartans sonur.
Þín móðir
Hafalda Breiðfjörð Arnarsdóttir og stjúpfaðir Ásgeir Magnússon.