Formaður Sennilega hafa samtök launafólks aldrei verið mikilvægari en nú, segir Hörður í Grindavík.
Formaður Sennilega hafa samtök launafólks aldrei verið mikilvægari en nú, segir Hörður í Grindavík. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Á árunum fyrir hrun heyrðust þau sjónarmið að samtök launafólks væru barn síns tíma og óþörf í nýrri og breyttri veröld. Réttlæti væri í höfn og baráttunni lokið. Annað kom þó á daginn og sennilega hafa samtök launafólks aldrei verið mikilvægari en nú,“ segir Hörður Guðbrandsson, formaður Verkalýðsfélags Grindavíkur. Um 1.300 manns eru í félaginu, sem starfað hefur við óvenjulegar aðstæður að undanförnu.

Hörður Guðbrandsson var tekinn tali í tilefni af 1. maí, alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins. Í Grindavík liggur allt í láginni og ekkert verður um hátíðahöld þar í dag. Hörður kveðst með sínu fólki munu mæta í kröfugöngu í Reykavík og á baráttufund sem verður í eftirmiðdaginn á Ingólfstorgi. Sterk hreyfing – sterkt samfélag er yfirskriftin á boðskap dagsins að þessu sinni og segir formaðurinn þetta orð að sönnu.

Fólk á flæðiskeri

Vegna aðsteðjandi náttúruvár var Grindavík rýmd að kvöldi 10. nóvember og framhald þeirrar sögu er vel þekkt. Bæjarbúar voru með því komnir á flæðisker og hlutverk verkalýðsfélagsins við þær aðstæður því mikilvægt. Strax í kjölfar þess að bærinn var yfirgefinn bauð Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR Herði og hans fólki að koma sér fyrir á skrifstofum þess félags í Reykjavík og þar hefur starfsemin verið frá 13. nóvember.

„Boð Ragnars um að við í Verkalýðsfélagi Grindavíkur gætum verið með starfsemi okkar hér var kærkomið. Margir okkar félagsmanna hafa verið í óvissu með sín mál – réttindi, laun og fleira slíkt og leita því til félagsins síns eins og vera ber. Slíkt eru samskipti sem fara að stórum hluta fram í gegnum tölvu eða síma,“ segir Hörður og heldur áfram:

„En annað sem líka skiptir máli er að hér hjá VR höfum við átt gott bakland og stuðning við að móta ýmsar þær tillögur sem við höfum sett fram gagnvart stjórnvöldum til þess að mæta stöðu Grindvíkinga. Vegna húsnæðismála, fyrstingar lána, afkomutrygginga og annars slíks höfum við átt fjölda funda með ráðherrum, alþingismönnnum og fleirum og kynnt okkar sjónarmið. Í þau verkefni og önnur af sama toga hefur mestur kraftur farið að undanförnu. Í kjaraviðræðum í vetur vorum við öðru fremur viðhengi eða fylgihnettir stóru stéttafélaganna þegar samningar voru gerðir við atvinnulífið. Og þarna ber að taka fram að almennt er afkoma launafólks í Grindavík góð, en vinnudagurinn oft langur eins og gjarnan gerist við sjávarsíðuna.“

Félagsleg viðhorf í bænum

Hörður er úr Kjós, en flutti til Grindavíkur fyrir rúmum fjörutíu árum. Fór þangað á vertíð, kynntist svo konu úr byggðarlaginu og saman ákváðu þau að skapa sína framtíð þar.

„Ég byrjaði á vertíðarbátum, en var alltaf sjóveikur svo sjálfhætt varð. Fór þá að vinna í landi og vann í áratugi hjá Þorbirninum; lengi sem verkstjóri í saltfiskverkun en seinna við löndunarþjónustu. Og fór síðan að gefa mig að verkalýðsmálum sem leiddi til þess að 2018 valdist ég til þess – óvænt – að taka að mér formennsku í verkalýðsfélaginu,“ segir Hörður sem kveðst fljótt hafa kynnst því að samfélagið í Grindavík var samheldið og þar ríkjandi félagsleg viðhorf. Hann festi rætur í Grindavík og átti lengi sæti í bæjarstjórn þar.

„Sjóslys og önnur erfið atvik eiga sjálfsagt sinn þátt í því að Grindvíkingar standa saman eins og einn maður þegar þess þarf. Og þetta er einmitt jarðvegurinn sem verkalýðsfélagið í bænum hefur. Hvert samfélag þarf líka til dæmis íþróttafélag, kirkjukór, slökkvilið og björgunarsveit þannig að allt virki. Í þessu öllu stöndum við saman en svo þess utan getur fólk svo rifist um aukaatriðin.“

Afdráttarlaus um húsnæðismál

Hörður segir verkalýðsfélagið og fleiri strax frá rýmingu Grindavíkur hafa sett fram afdráttarlausar óskir til stjórnvalda vegna húsnæðismála bæjarbúa. Nokkuð hafi áunnist þar með uppkaupum á húseignum þannig að fólk geti fest sér íbúðir annars staðar. Nauðsynlegt hefði þó verið að fara í skjóta uppbyggingu á einingahúsum, enda séu margir enn á hrakhólum.

„Margir hafa sett sig niður að minnsta kosti tímabundið í Vogabyggð í Reykjavík, Smárahverfinu í Reykjavík og þá er stór hópur í nýjum fjölbýlishúsum á Álftanesi. Einhverjir líka á Selfossi og í Þorlákshöfn. Auðvitað horfir margir til þess að flytja aftur heim til Grindavíkur. Sennilega er þó nokkuð langt í að bærinn verði aftur samur; enda þótt fyrirtækin séu nokkur að flytja þangað aftur með starfsemi sína,“ segir Hörður og bætir við:

„Eðilega reynir ástandið á bæði líf og andlega líðan fólks. Nokkuð er um að fólk hafi vegna þess umróts sem nú er í lífi þess horfið af vinnumarkaði að minnsta kosti tímabundið og fái greiðslur úr sjúkrasjóði sem eru til fjögurra mánaða. Þess eru þó dæmi að fólk nái ekki styrk sínum á þeim tíma og þá þyrfti til dæmis sálfræðihjálp að koma til. Óskir um stuðning ríkisins við slíkt og fleira eru mál sem við höfum óskað eftir fundi með ráðherrum um. Og af því má sjá að verkefni verkalýðsfélaganna eru mjög fjölbreytt; snúa að velferð fólksins í sinni fjölbreyttustu mynd.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson