Við þekkjum öll orðatiltækið um að slysin geri ekki boð á undir sér. En þau gera það sannarlega stundum. Það á til dæmis við um slysið sem varð á dögunum þegar Alþingi fékk til umfjöllunar fiskeldisfrumvarp matvælaráðherra. Frumvarpinu er ætlað að skapa atvinnugreininni skilyrði til aukinnar verðmætasköpunar með sjálfbæra nýtingu og vistkerfisnálgun að leiðarljósi svo vitnað sér í greinargerð frumvarpsins sem er nú komið til meðferðar hjá atvinnuveganefnd Alþingis. Það er gríðarlega mikilvægt að vel takist til í vinnu nefndarinnar. Hér er um að ræða mikilvæga atvinnugrein sem getur haft mikil og jákvæð áhrif á atvinnutækifæri á landsbyggðinni en að sama skapi neikvæð langvarandi umhverfisáhrif ef við vöndum ekki til verka. Okkur er öllum hollt að hafa hér í huga þann alvarlega áfellisdóm sem Ríkisendurskoðun felldi yfir stjórnsýslu málaflokksins í úttekt sinni í fyrra.
Hvað var það svo sem vakti mesta athygli – og það með réttu – þegar matvælaráðherra kynnti þetta mikilvæga mál sitt? Jú, í 33. grein frumvarpsins er það nýmæli að rekstrarleyfi í sjókvíaeldi verði ótímabundin; að fiskeldisfyrirtækin fái firðina okkar afhenta undir starfsemi sína um aldur og ævi. Þessi gjöf datt sannarlega ekki óvænt af himnum ofan. Hún kom frá matvælaráðherra inn á borð þingflokka Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem allir lögðu blessun sína yfir hana áður en frumvarpið fór til fyrstu umræðu í þingsal. Þetta mætti kalla að gera boð á undan sér.
Í kjölfar fjölmiðlaumræðu og kröftugra mótmæla frá stjórnarandstöðunni fór boltinn að rúlla og almenningur reis upp. Það er ánægjulegt að margir stjórnarþingmenn brugðust hratt og vel við og viðurkenndu jafnvel að hafa sofið á verðinum. Í atvinnuveganefnd var einhugur um að kalla eftir minnisblaði frá ráðherra um hvernig hægt væri að breyta umræddri 33. grein á þann veg að rekstrarleyfin yrðu tímabundin. Skilaboð nefndarinnar voru þannig skýr og ég er vongóð um að þar náist samstaða um að afstýra slysinu. Þingið verður einfaldlega að standa með þjóðinni hér!
Meirihluti Alþingis gæti hins vegar ákveðið að gæta ekki hagsmuna almennings hér heldur mynda varðstöðu um allt aðra hagsmuni. Er ekki kominn tími til að tryggja að slíkt gerist ekki þegar kemur að nýtingu náttúruauðlinda þjóðarinnar? Þetta slys er skýr skilaboð til okkar um að taka okkur taki og setja auðlindaákvæði í stjórnarskrána með ótvíræðri tímabindingu sem tryggir þjóðinni forræði yfir auðlindum sínum. Leiðarljósið á að vera verðmætasköpun í þágu þjóðarinnar en ekki hliðrun verðmæta frá almenningi í þágu sérhagsmuna.
Höfundur er þingflokksformaður Viðreisnar. hannakatrin@althingi.is