Jórunn Guðný Helgadóttir fæddist 11. júní 1929. Hún lést 3. apríl 2024.

Útför Jórunnar var gerð 19. apríl 2024.

Þá er komið að kveðjustund elsku yndislega Jórunn.

Ég er mjög þakklát fyrir að hafa haft þig í fjölskyldunni síðan ég man eftir mér. Þú varst alltaf svo blíð, góð og svo skemmtileg. Það var svo gaman að kíkja til þín og hlusta á þig segja frá „gömlu“ dögunum, því að þú hafðir alveg einstaka frásagnarhæfileika. Mér fannst sérstaklega gaman að heyra þig segja frá því hvernig þú kynntist Gunnari þínum. Þú varst vinkona mömmu minnar og þú vildir helst alltaf vera heima hjá henni þegar þið ætluðuð að hittast, en stór ástæða þess var að Gunnar var bróðir mömmu minnar og þér leist svo vel á hann. Enda fór það svo að þið giftust og eignuðust börn og bú. Mér finnst þetta svo falleg ástarsaga og það besta við hana er að hún er sönn. Þú varst líka alltaf svo ung í anda og fylgdist vel með hvað var í tísku hverju sinni. Mig langar að þakka þér fyrir hvað þú varst alltaf góð við mig. Ég vona að þér líði vel þar sem þú ert núna og ég veit að Gunnararnir þínir hafa tekið vel á móti þér. Ég votta öllum afkomendum þínum mína dýpstu samúð. Megi Guð og aðrar góðir vættir styrkja ykkur og styðja í gegnum erfiða tíma.

Þeir segja mig látna, ég lifi samt

og í ljósinu fæ ég að dafna.

Því ljósi var úthlutað öllum jafnt

og engum bar þar að hafna.

Frá litlu hjarta berst lítil rós,

því lífið ég þurfti að kveðja.

Í sorg og í gleði ég senda mun ljós,

sem að mun ykkur gleðja.

(G. Ingi)

Ástarkveðjur,

Halla Einarsdóttir.