Eldgosið Talið er líklegast að krafturinn í eldgosinu muni aukast og að senn dragi til tíðinda við Sundhnúk.
Eldgosið Talið er líklegast að krafturinn í eldgosinu muni aukast og að senn dragi til tíðinda við Sundhnúk. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gígurinn þar sem nú gýs við Sundhnúkagíga er 38 metrar þar sem hann er hæstur, samkvæmt mælingum frá myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Birgir Vilhelm Óskarsson jarðfræðingur hjá stofnuninni segir að teymið hafi flogið yfir gosstöðvarnar í gær

Ólafur Pálsson

Viðar Guðjónsson

Gígurinn þar sem nú gýs við Sundhnúkagíga er 38 metrar þar sem hann er hæstur, samkvæmt mælingum frá myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar Íslands. Birgir Vilhelm Óskarsson jarðfræðingur hjá stofnuninni segir að teymið hafi flogið yfir gosstöðvarnar í gær. „Við fljúgum yfir og gerum hæðarmælingu á öllu og í framhaldinu munum við bera saman síðasta hæðarlíkan við þetta nýja,“ segir Birgir.

Hann segir að síðasta mæling hafi gefið til kynna að rúmmál efnisins sem komi úr gosinu á hverjum degi sé á við um 20-30 þúsund ólympíusundlaugar. „Þetta er rétt undir einum rúmmetra á sekúndu,“ segir Birgir. Segir hann jafnframt að mestar líkur séu á því að krafturinn í eldgosinu við Sundhnúkagíga muni aukast fremur en að eldgosið lognist út af.

Landris mælist enn við Svartsengi en vísbendingar eru um að hægt hafi á því. Heildarrúmmál kviku undir Svartsengi frá 16. mars er metið yfir 10 milljón rúmmetrar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Veðurstofu Íslands, en þar segir m.a. að þróunin bendi til þess að þrýstingur sé að byggjast upp í kvikuhólfinu.

Myndmælingateymi Náttúrufræðistofnunar og Landmælinga Íslands hefur unnið úr gervitunglamyndum og gögnum síðan 25. apríl. Mælingar og líkanútreikningar benda til þess að talsverð óvissa sé um framhaldið. Líklegt sé þó að fljótlega dragi til tíðinda.

Á vísindafundi Veðurstofunnar í gærmorgun var hættumat yfirfarið og uppfært en hætta vegna hraunflæðis er metin meiri og hætta vegna gjósku minni. Heildarhætta á svæði 4 var færð úr töluverðri (appelsínugult) í mikla (rautt) og eru auknar líkur taldar á því að fljótlega dragi til tíðinda á svæðinu í kringum Sundhnúk. Er metið líklegra en áður að hraun geti runnið hratt til suðurs.

Höf.: Ólafur Pálsson