Íslandsmeistarar Leikmenn Hamars fagna sigri á Íslandsmótinu eftir sigur gegn Aftureldingu í gærkvöldi.
Íslandsmeistarar Leikmenn Hamars fagna sigri á Íslandsmótinu eftir sigur gegn Aftureldingu í gærkvöldi. — Ljósmynd/Sigrún Kristjánsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hamar tryggði sér í gær Íslandsmeistaratitil karla í blaki eftir sigur gegn Aftureldingu í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í Hveragerði. Leiknum lauk með 3:1-sigri Hamars en Hamar vann einvígið 3:0 og stóð því uppi sem Íslandsmeistari í þriðja sinn á síðustu fjórum árum

Blak

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Hamar tryggði sér í gær Íslandsmeistaratitil karla í blaki eftir sigur gegn Aftureldingu í þriðja leik liðanna í úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í Hveragerði. Leiknum lauk með 3:1-sigri Hamars en Hamar vann einvígið 3:0 og stóð því uppi sem Íslandsmeistari í þriðja sinn á síðustu fjórum árum.

Hamarsmenn byrjuðu leikinn betur og náðu snemma níu stiga forskoti í fyrstu hrinu, 19:10. Aftureldingu tókst að laga stöðuna og minnka muninn í 19:13, en Hamar var mun sterkari aðilinn heilt yfir og fagnaði öruggum sigri í fyrstu hrinu, 25:16.

Afturelding jafnaði metin

Önnur hrinan var æsispennandi þar sem Afturelding var með frumkvæðið framan af. Afturelding leiddi 15:12 en Hamar tókst að snúa hrinunni sér í vil og komast yfir, 19:18. Afturelding vann hins vegar eftir upphækkun, 25:23, og var staðan orðin jöfn, 1:1.

Hamarsmenn voru sterkari í þriðju hrinu og leiddu nánast allan tímann. Þeir komust í 14:10 og í 23:16. Afturelding var aldrei líklegt til þess að koma til baka eftir það og Hamar fagnaði 25:17-sigri í þriðju hrinu.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með í fjórðu hrinu. Staðan var 4:4 en þá hrukku Hamarsmenn í gang og komust í 21:16. Aftureldingu tókst að minnka muninn í 23:21 en lengra komust Mosfellingar ekki og Hamar fagnaði 25:21-sigri í lokahrinunni.

Rafal Berwald var stigahæstur hjá Hamri með 16 stig en Hafsteinn Már Sigurðsson var stigahæstur hjá Aftureldingu með 17 stig.

Hamar varð bæði bikar- og deildarmeistari á dögunum, fjórða árið í röð, en liðið varð Íslandsmeistari árið 2021 og 2022. KA varð hins vegar Íslandsmeistari á síðustu leiktíð eftir sigur gegn Hamri í úrslitum Íslandsmótsins.

Afturelding var að leika til úrslita í karlaflokki í fyrsta sinn í sögu félagsins en félagið varð bikarmeistari árið 2017.