Vaxtaákvörðun er aðeins vísindi að hluta til. Hitt er ágiskun

Loksins lætur sumarið sjá sig og við tökum flest feginsamlega á móti því. Sumardagurinn fyrsti stendur stundum fremur illa undir nafni, þá vindar blása önugir óháð dagatalinu. En það gerir ekki mikið til. Dagurinn er þrátt fyrir allt, hvernig sem viðrar, eins og hver annar sendiherra sólarinnar, sem við tökum hattinn ofan fyrir og því, að björtu dagarnir, sem flykkjast hingað norður eftir hver á fætur öðrum, fara vel í skap okkar, líðan og vonir.

Í dag, 1. maí, eru þjóðfánar víða dregnir að húni og fer vel á, enda eru þeir tákn um samstöðu þjóðar, sem er stundum endranær tilbúin til að vera dálítið upp á kant í stórum málum og smáum og einkum þó yfir smælkinu. Íslendingar eru jú, þrátt fyrir alls konar óánægju, í meginatriðum þakklátir fyrir það að vera hluti af lýðræðisskipulagi, sem einungis örfáar þjóðir geta státað af. Það er öfundsvert fyrir allar þjóðir, sem lúta reglu og refsivendi stjórnvalda, sem enginn maður hefur kosið, en sitja þó stundum áratugum saman við katla valdsins eins og það er kallað. Og það er ekki fráleitt að viðurkenna að almenn átök og deildar meiningar eru hollar, þó helst í bærilegu hófi, eins og gildir einnig um hressilega göngutúra, og aðra líkamlega áreynslu, í hvaða mynd sem hún er, jafnvel í jafn ólíkum hlutum eins og þeim, þegar menn „láta kylfu ráða kasti“ í golfi eða „old boys“ fótbolta eða láta sér nægja að sækja svitann ofan í heita pottinn. Sumir segja að næg íþróttaiðkun sé að spila bridds vikulega á veturna, sem að sögn styrkir heilann, sem er þó ekki vöðvi, en er móttækilegur fyrir svo notalegum slag, og þá helst mörgum slíkum.

Nú er vika í næstu vaxtaákvörðun Seðlabankans (peningastefnunefndar) og eru nokkrar væntingar um að bankinn hljóti þá að íhuga varfærnislega vaxtalækkun. Hvers vegna varfærnislega? Meðal annars vegna þess að bankanum þætti afleitt ef skilyrðin myndu óvænt breytast í framhaldinu og knýja á um, að hann yrði í náinni framtíð gerður afturreka með ákvörðun sína um að seinka lækkunarferlinu. Það þætti bankanum óheppilegt.