Eftirspurn eftir leiguhúsnæði á íbúðamarkaði er sögð vera langt umfram framboðið.
Eftirspurn eftir leiguhúsnæði á íbúðamarkaði er sögð vera langt umfram framboðið. — Morgunblaðið/ÞÖK
Vignir Már Lýðsson, framkvæmdastjóri fjártæknifyrirtækisins Leiguskjóls, segir dæmi um hundruð umsókna um eignir sem auglýstar eru til leigu á vefnum myigloo.is. Félagið á og rekur vefinn og þá m.a. í samstarfi við mbl.is

Vignir Már Lýðsson, framkvæmdastjóri fjártæknifyrirtækisins Leiguskjóls, segir dæmi um hundruð umsókna um eignir sem auglýstar eru til leigu á vefnum myigloo.is. Félagið á og rekur vefinn og þá m.a. í samstarfi við mbl.is.

Vignir segir að í hverjum mánuði leigi fólk út um 400 til 500 eignir í gegnum myigloo.is en að jafnaði séu um 2.000 einstaklingar sem sæki um eignirnar. Almennt séu því fjórir til fimm og stundum mun fleiri sem sækja um hverja eign og eftirspurnin því margföld.

Hægt er að gera rafræna leigusamninga í gegnum vefinn en í hverjum mánuði eru hátt í eitt þúsund samningar undirritaðir og áætlar Vignir að vel væri hægt að gera 1.500 til 2.000 samninga ef framboð fasteigna væri nægt.

„Það er því margföld eftirspurn eftir leiguhúsnæði,“ segir Vignir og tekur fram að eftirspurn eftir eignum sé misjöfn. Sumir leigusalar fái fáar umsóknir en aðrir leigusalar fái jafnvel hundruð umsókna þegar eignir eru eftirsóttar. Staðan hafi verið svona í rúmt ár og ekki sé að merkja mikla aukningu í kjölfar hamfaranna í Grindavík síðasta haust. Margt kunni að skýra mikla eftirspurn. Mörg ungmenni búi í foreldrahúsum en vilji eigið húsnæði. Erlendum ferðamönnum sé að fjölga á ný og erlendir ríkisborgarar að flytja hingað.

„Þá má nefna flóttamenn frá Úkraínu en um 6% notenda okkar eru þaðan. Það er að skapast mikill þrýstingur hjá þessum hópi enda eru margir Úkraínumenn að fara á almenna leigumarkaðinn eftir að hafa verið í úrræðum. Því er að skapast þrýstingur úr mörgum áttum en á sama tíma er framboðið takmarkað og miklu minna byggt en ætti að vera gert miðað við eftirspurnina. Fyrir vikið er leiguverð að hækka mikið,“ segir Vignir en auk þess spili hátt vaxtastig inn í og almennt aukinn kostnaður við rekstur fasteigna.

Markaðurinn kominn að þolmörkum

Markaðurinn sé þó kominn að þolmörkum og ljóst að auka verði framboð eigna til að sporna við hækkunum því alls ekki sé víst að leiguverð lækki þótt vextir lækki. Margir samningar séu enda til langs tíma og leiguverðið fast. Loks vekur Vignir athygli á því að margir umsækjendur búi erlendis og taki síðan ákvörðun um hvort þeir flytji hingað til lands út frá því hvort þeir fái hér eign til leigu.