Garðar Stefánsson framkvæmdastjóri Good Good var gestur í Dagmálum sem birtur er á mbl.is.
Garðar Stefánsson framkvæmdastjóri Good Good var gestur í Dagmálum sem birtur er á mbl.is.
Matvælafyrirtækið Good Good stefnir á að verða fimmta stærsta smyrjumerki í Bandaríkjunum en fyrirtækið hefur verið í mikilli sókn á Bandaríkjamarkaði að undanförnu. Árið 2022 velti fyrirtækið rúmum milljarði íslenskra króna og stefnt er að frekari vexti á þessu ári

Matvælafyrirtækið Good Good stefnir á að verða fimmta stærsta smyrjumerki í Bandaríkjunum en fyrirtækið hefur verið í mikilli sókn á Bandaríkjamarkaði að undanförnu. Árið 2022 velti fyrirtækið rúmum milljarði íslenskra króna og stefnt er að frekari vexti á þessu ári. Fyrirtækið selur meðal annars sultu, súkkulaðismjör og hnetusmjör.

Garðar Stefánsson, framkvæmdastjóri Good Good, er nýjasti gestur Dagmála sem birtur er á mbl.is. í dag.

Garðar segir að vöruþróun hjá Good Good sé síbreytileg og fyrirtækið hafi lagt mikla vinnu í að framkvæma vöruþróunina rétt.

„Vöruþróun er flókið fyrirbæri. Þetta snýst ekki eingöngu um að fullkomna bragð, næringargildi eða umbúðirnar. Það þarf líka að koma skilaboðunum áleiðis sem eru að varan okkar er náttúruleg vara með engan viðbættan sykur sem bragðast líka virkilega vel. Vöruþróunin hjá okkur hættir aldrei en við erum sífellt að leita leiða til að bæta vörurnar okkar,“ segir Garðar.

Þó svo að Bandaríkjamarkaður sé langstærsti markaður fyrirtækisins er vörur Good Good að finna í tugum landa, meðal annars í Kanada, Bretlandi, Portúgal, Spáni, Danmörku og Suður-Kóreu.

Good Good er í samstarfi við marga áhrifavalda í markaðssetningu en umfjöllun um vöruna hefur líka birst í sjónvarpsþáttum, meðal annars Good Morning America.

„Fyrir tveimur vikum var Drew Barrymore gestur þar og missti sig yfir súkkulaðismjörinu okkar.“

Ætla að slá út Nutella á Íslandi

Spurður hvort það hafi verið eitthvert eitt augnablik sem varð til þess að fyrirtækið fór á flug segir Garðar að það augnablik hafi átt sér stað árið 2019.

„Þegar við byrjuðum að selja í gegnum Amazon og við vorum ein af þeim fyrstu til að selja matvörur í gegnum Amazon. Það kom augnablik þar sem salan fór lóðrétt upp. Þá fór fjöldinn allur af bloggurum og áhrifavöldum að fjalla um vörurnar okkar og segja að við værum með bestu sykurlausu sultuna. Í kjölfarið komu búðirnar til okkar og hófu að selja vörurnar okkar,“ segir hann.

Good Good er orðið sterkt vörumerki hér á Íslandi og Garðar segir að markmið þeirra sé að súkkulaðismjör fyrirtækisins seljist í meira magni hér á landi en Nutella-smjörið.

„Ég er ekki með nýjustu tölurnar en ég held við séum annaðhvort ótrúlega nálægt því eða búin að því,“ segir Garðar.

Garðar bætir við að reksturinn hafi farið í gegnum ýmis tímabil en covid og erfiðleikar í tengslum við stríðið í Úkraínu hafi reynst fyrirtækinu erfitt.

„Við erum þó á ágætis stað í dag og erum að bæta afkomu okkar. Við höfum verið að fjárfesta í vexti en ætlum núna að einbeita okkur að því að skila jákvæðri EBITDU,“ segir Garðar að lokum.