Á Boðnarmiði segir Magnús Halldórsson fréttir af klausturhaldi:
Garðabær óskar eftir meðaðilum til samstarfs í rekstri klausturs Sankti Jósepssystra:
Þar mætti bæta mannasiði og ræður
og meingallaða staga svo í æru.
Þarna gætu Klaustur-barsins bræður
búið kannski (ef þeir geltir væru).
Jón Atli Játvarðarson bætti við:
Látið vel að Sjöfn og Sunnu,
Simma nægði kjötið hráa.
Boðið upp á brugg úr tunnu,
bakvið klausturvegginn lága.
Ingólfur Ómar Ármannsson segir fallegt veðrið hér syðra:
Sólin baðar land og lá
loft er kvikt af hljómi.
Vermir sinni, vekur þrá
vorsins dýrðarljómi.
Jakob Frímannsson Skúfi kvað:
Þó heimur spjalli margt um mig
og mínum halli sóma
læt ég falla um sjálfa sig
svoddan palladóma.
Helgi Ingólfsson yrkir:
Drífur segg og svanna á fund,
svífur efst um stalla,
klýfur misklíð, léttir lund,
lífsins vorhljóð gjalla.
Gífurlega Halla Hrund
hrífur þjóðina alla.
Friðrik Steingrímsson vísar í mbl.is: Baldur man ekki hvernig hann
kaus í Icesave:
Gleymskan illa frekar fer
með frambjóðandaskarið,
úr minni Baldurs Icesave er
algerlega farið.
Sumarkomuljóð eftir Hallmund Guðmundsson:
Hraðbyri óðar sumarið mun sigla inn flóann
og syngja þá af fögnuði; kötturinn og lóan.
Svo eflaust á hundum þá iðar sífellt rófan
– en allra hæst gaggar á melnum; svanga tófan.
Limra eftir Gunnar J. Straumland:
Þótt tali ég töluvert mikið
og taumleysið fari yfir strikið
er sífellda malið
það sorglega galið
að ég segi ekki neitt fyrir vikið.
Öfugmælavísan:
Geitur hafa góða ull,
í galli er mesta sæta,
í krummanefi er kláragull,
í klónum silfrið mæta.