70 ára Þorgrímur ólst upp í Holti á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu og var bóndi þar í 25 ár. Hann er húsasmíðameistari að mennt og vann meðfram bústörfum sem smiður og byggingarstjóri hjá Trésmiðjunni Stíganda á Blönduósi

70 ára Þorgrímur ólst upp í Holti á Ásum í Austur-Húnavatnssýslu og var bóndi þar í 25 ár. Hann er húsasmíðameistari að mennt og vann meðfram bústörfum sem smiður og byggingarstjóri hjá Trésmiðjunni Stíganda á Blönduósi.

„Ég átti hlut í fyrirtækinu og rak það ásamt félaga mínum í nokkur ár. Toppurinn á því starfi var þegar við byggðum sundlaugina á Blönduósi. Hún er vel lukkuð og ég var bæði byggingarstjóri og meistari í því. Ég prófaði líka að vera smíðakennari í Húnavallaskóla 1986-1995.“

Frá 2014 hefur Þorgrímur búið á Sauðárkróki og unnið hjá Trésmiðjunni Borg. „Ég er enn að vinna en er búinn að minnka við mig, er kominn í hálft starf.“

Þorgrímur segist ekki hafa starfað mikið að félagsmálum en hann sat í stjórn Veiðifélags Laxár á Ásum í rúm 25 ár auk þess sem hann starfaði með Leikfélagi Blönduóss í um 20 ár. Áhugamálin eru ferðalög og hestamennska. „Við hjónin höfum ferðast mikið til útlanda en höfum minnkað það seinni árin. Við fórum m.a. sérstaklega skemmtilega ferð á Nýja-Sjálandi. Sú ferð stendur upp úr. Svo höfum við líka ferðast mjög mikið innanlands. Ég er með hesta hér á Sauðárkróki en þeir eru orðnir örfáir. Maður átti fleiri þegar ég var í sveitinni.“

Fjölskylda Eiginkona Þorgríms er Svava María Ögmundardóttir, f. 1954. Hún vann m.a. hjá Sýslumanninum á Blönduósi og á pósthúsinu og eftir að þau hjónin fluttu á Sauðárkrók vann hún við umönnun aldraðra. Börn þeirra eru Maríanna, f. 1974, Aðalbjörg, f. 1978, og Ögmundur, f. 1983. Barnabörnin eru sex. Foreldrar Þorgríms voru hjónin Aðalbjörg Þorgrímsdóttir, f. 1918, d. 2007, og Pálmi Ólafsson, f. 1916, d. 2005, bændur í Holti. Þau keyptu jörðina 1947.