Nýlega var tilkynnt að Benedikt S. Benediktsson muni setjast í framkvæmdastjórastólinn hjá SVÞ í september næstkomandi. Hann tekur við starfinu af Andrési Magnússyni sem staðið hefur vaktina frá 2008.
Hverjar eru helstu áskoranirnar þessi misserin?
Vorið er alltaf annatími á skrifstofu SVÞ. Eins og margir þekkja rignir lagafrumvörpum yfir þingið í kringum mánaðamótin mars/apríl og því er jafnan nóg að gera við lestur og greiningu á hvernig fyrirhugaðar lagabreytingar snerta aðildarfyrirtækin. Það gera sér e.t.v. ekki allir grein fyrir því að aðildarfyrirtæki SVÞ eru rúmlega fjögur hundruð, alveg frá því að vera í einmenningsrekstri upp í að vera stór fyrirtæki skráð á markað.
Á heildina litið blasa hvað helst sex áskoranir við SVÞ um þessa mundir. Í fyrsta lagi stafvæðing í verslun og þjónustu og nýting nýrrar tækni. Hlutirnir eru að breytast hratt bæði hvað varðar framboð nýrrar tækni og neytendahegðun, t.d. hvað varðar netverslun og hefðbundna verslun. Í öðru lagi hæfni starfsfólks því nýjungarnar kalla á aðra þekkingu en áður og við rekstraraðilum blasir þörf á að bæta þekkingu og getu starfsfólksins til að takast á við breytta stöðu. Í þriðja lagi sjálfbærni í rekstri, annars vegar þar sem Evrópusambandið hefur lagt áherslu á sjálfbærni og hringrásarhagkerfið í sínu regluverki sem hingað ratar og hins vegar vegna þessa að tíðarandinn og kröfur neytenda eru að taka breytingum.
Í fjórða lagi blasa við SVÞ töluverðar áskoranir vegna markmiða Íslands og EES-ríkjanna í loftslagsmálum. Stjórnvöld hafa sett stefnuna á hröð orkuskipti að því er virðist án þess að hafa gert sér almennilega í hugarlund hvernig verði tekist á við það verkefni að ná þeim markmiðum. Sjötta áskorunin er í raun verulegt umhugsunarefni og hún kemur fram í því að lagafrumvörp og drög að breytingum á reglugerðum eru iðulega kynnt án þess að hið opinbera hafi lagt í vinnu við að átta sig á því hvaða áhrif þau kunni að hafa á rekstur fyrirtækja og almenning. Það fellur því í hlut SVÞ að ná fram mynd af ætluðum áhrifum og halda henni á lofti gagnvart stjórnvöldum. Það er nefnilega svo að jafnvel mjög vel meintar hugmyndir stjórnvalda geta hæglega haft skakkaföll í för með sér ef menn gæta ekki að sér. Í því kristallast sú staðreynd að inngrip stjórnvalda í blönduðu hagkerfi geta virkað eins og notkun sleggju í skartgripasmíði, meiningin næst fram með öflugu högginu en afleiðingarnar geta orðið hálfgert klessuverk.
Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Þessari spurningu er erfitt að svara enda er svarið breytilegt eftir tíð og tíma. Pabbi var mjög athafnasamur, var sauðfjárbóndi í Ísafjarðardjúpi, rak stóra fiskeldisstöð og var fyrr og síðar byggingarverktaki. Athafnasemi og drifkraft sæki maður til hans hugmynda og hugsjóna. Segja má að séra Baldur Vilhelmsson, prestur í Vatnsfirði, hafi sýnt í verki að hádramatískan efnivið megi nálgast með kímni í huga. Í laganáminu og starfi á Alþingi og í ráðuneyti lærði ég vönduð vinnubrögð. Kennsla og skrif Páls Hreinssonar standa upp úr ásamt öguðum stíl Róberts R. Spanó. Að öðru leyti býr maður að einhverskonar pottrétti hugmynda og hugsana. Ég kann alltaf vel við skrif Hayeks og ýmissa hagfræðinga en nýt þess að velta mér upp úr hugmyndum annarra. Á hverjum degi heyri ég frá stjórnendum aðildarfyrirtækja SVÞ sem segja mér frá einhverju sem mér finnst gagnlegt og ég vil tileinka mér. Þannig að hver hugsuður á sinn tíma hjá mér en lykilatriðið er að vera opinn fyrir nýjum hugmyndum.
Hvaða bók hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?
Ég mann ekki hvert útgáfuárið var en Economics eftir N. Gregory Mankiw og Mark P. Taylor er kannski það fyrsta almennilega sem ég las á sviði hagfræði og mér fannst það auka skilning minn á viðfangsefnum efnahagslífsins, ekki síst atvinnulífsins. Að lesa Factfulness eftir Hans Rossling var þörf áminning. The Black Swan stillti væntingarnar af. Ýmsar bækur á sviði réttarheimspeki hafa kennt manni að hugsa. Ég kunni vel við The E-Myth Manager eftir Gerber en á pínu erfitt með það sem kannski mætti í einhverjum skilningi kalla sjálfshjálparbækur.
Ævi og störf:
Nám: Menntaskólinn á Egilsstöðum 1994; nám í grunnskólakennarafræðum við KHÍ 1996 til 1999; lögfræðigráða frá HÍ 2010.
Störf: Sölumaður hjá Heimilistækjum ehf. 1999 til 2001; sölumaður og innkaupafulltrúi hjá Ó. Johnson & Kaaber ehf. 2001 til 2005; lögfræðingur hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna 2010; ritari fastanefnda Alþingis 2010 til 2015; deildarsérfræðingur á skattaskrifstofu fjármála- og efnahagsráðuneytisins 2015 til 2019; lögfræðingur SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu frá 2019 og framkvæmdastjóri frá september 2024.
Áhugamál: Ég er bókaormur og les hvað helst ævisögur og rit um efnahagsmál. Af einhverjum ástæðum er ég með einhvers konar hrunblæti því ég get ekki látið bækur um fjármálahrunið fram hjá mér fara, jafnvel þótt ég ákveði að hverri bók aflokinni að hún verði sú síðasta sem ég les á þessu sviði. Þá er ég alltaf í einhverju sprikli, lyfti lóðum, hleyp og geng á fjöll í nágrenni höfuðborgarsvæðisins.
Fjölskylduhagir: Kvæntur Guðrúnu Einarsdóttur, verslunarstjóra hjá Lyfjum og heilsu, og á tvö börn á þrítugsaldri, Úlfar Rafn og Maríu Rún, og læðuna Fríðu sem er tekin að reskjast.