Skot Valsarinn Lilja Ágústsdóttir reynir skot að marki Eyjakvenna í leik Vals og ÍBV á Hlíðarenda í gær en Lilja skoraði alls sex mörk í leiknum.
Skot Valsarinn Lilja Ágústsdóttir reynir skot að marki Eyjakvenna í leik Vals og ÍBV á Hlíðarenda í gær en Lilja skoraði alls sex mörk í leiknum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Íslandsmeistarar Vals tryggðu sér örugglega sæti í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna í handknattleik í gær með stórsigri gegn ÍBV í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins á Hlíðarenda. Leiknum lauk með átta marka sigri Vals, 30:22, sem vann einvígið afar sannfærandi 3:0

Íslandsmeistarar Vals tryggðu sér örugglega sæti í úrslitaeinvígi Íslandsmóts kvenna í handknattleik í gær með stórsigri gegn ÍBV í þriðja leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmótsins á Hlíðarenda. Leiknum lauk með átta marka sigri Vals, 30:22, sem vann einvígið afar sannfærandi 3:0.

Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi og Valur leiddi með einu marki í hálfleik, 12:11. Mikið jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks og var munurinn á liðunum eitt mark, 19:18, þegar rúmlega 15 mínútur voru til leiksloka. Valskonur voru hins vegar mun sterkari á lokamínútunum og fögnuðu öruggum sigri.

Elín Rósa Magnúsdóttir, Þórey Anna Ásgeirsdóttir, Lilja Ágústsdóttir og Thea Imani Sturludóttir skoruðu sex mörk hver fyrir Val en Birna Berg Haraldsdóttir var markahæst hjá ÍBV með sjö mörk.

Valur mætir annaðhvort Fram eða Haukum í úrslitum Íslandsmótsins en staðan í einvígi Hauka og Fram er 2:0, Hafnfirðingum í vil.