Ingjaldssandur Menning og félagslíf var með miklum blóma á Ingjaldssandi og barnmargar fjölskyldur á bæjunum.
Ingjaldssandur Menning og félagslíf var með miklum blóma á Ingjaldssandi og barnmargar fjölskyldur á bæjunum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Halla Signý Kristjánsdóttir fæddist 1. maí 1964. „Ég er fædd á Flateyri á degi verkalýðsins. Móðir mín, Árilía, hafði komið nokkrum vikum fyrr akandi í Land Rover yfir tvær heiðar frá Ingjaldssandi yfir á Flateyri

Halla Signý Kristjánsdóttir fæddist 1. maí 1964.

„Ég er fædd á Flateyri á degi verkalýðsins. Móðir mín, Árilía, hafði komið nokkrum vikum fyrr akandi í Land Rover yfir tvær heiðar frá Ingjaldssandi yfir á Flateyri. Það hafði verið sérstaklega mildur vetur og því fært landleiðina. Móðir mín hafði kviðið fyrir vetrinum og að komast í tæka tíð undir læknishendur, en þá dreymir hana draum þar sem hún er að syngja: „Hvað boðar nýárs blessuð sól, hún boðar náttúrunnar jól.“ Hún réð þann draum á þann veg að það myndi blessast. Það gekk eftir og minntist hún þess að þau hefðu stoppað á heiðinni og getað tínt fjallagrös því snjórinn var ekki til trafala.“

Halla ólst upp á Brekku á Ingjaldssandi og ólst þar upp hjá foreldrum sem voru bændur þar og tíu systkinum, sem komust á legg.

„Ég var yngst í stórum systkinahóp, það hefur þurft dass af þolinmæði og ráðdeild að koma þeim hóp til manns. Það gekk eftir enda fylgdi hringrásarhagkerfið og endurnýting í hverju verki og matarsóun þekktist ekki, þrátt fyrir að þessi hugtök hafi ekki verið höfð á orði heldur voru þau eðlislæg og genetísk og allir tóku þátt í þeim verkum sem þurfti að leysa af hendi. Þótt þau hafi verið mörg, gleymdist ekki að setjast niður og syngja, segja sögur og lesa góðar bækur. Það var gott að alast upp á Ingjaldssandi þar sem menning og félagslíf var með miklum blóma og barnmargar fjölskyldur á bæjunum í dalnum.

En byggðarlagið bjó ekki yfir atvinnutækifærum eða framhaldsmenntun og því flaug maður snemma úr hreiðrinu þar sem lífið beið í sinni fjölbreytni. Ég hef búið í Bolungarvík, Borgarnesi og Reykjavík núna vegna vinnu og heima er Önundarfjörður.“

Halla gekk í barnaskóla á Ingjaldssandi og Héraðskólann á Núpi í Dýrarfirði í tvö ár. Hún kláraði viðskiptafræði frá Bifröst og stundaði opinbera stjórnsýslu við HÍ.

Halla hefur starfað við ýmislegt, sem bankastarfsmaður, var bóndi í tíu ár á Kirkjubóli í Bjarnardal í Önundarfirði og fjármálastjóri Bolungarvíkurkaupstaðar í tólf ár. Nú situr hún á Alþingi fyrir Framsókn í Norðvesturkjördæmi og var kjörin á þing árið 2017.

„Það var mikill heiður að fá að setjast inn á þing. Ég hef kynnst svo mörgu góðu fólki og alltaf er skemmtilegast að ferðast um kjördæmið og kynnast því öfluga starfi sem er víða bæði innan kjördæmis og utan. Ég hef tekið þátt í mörgum uppbyggilegum verkefnum enda vinn ég með öflugu fólki enda eins og Vestfirðingar segja stundum, maður gerir ekki rassgat einn! Það er nefnilega lífið að fá að ferðast með góðu fólki.“

Áhugamál Höllu liggja víða, þótt aðallega séu það samfélagsmál, félagsmál og útivera. „Fjölskyldan er þó alltaf í heiðurssæti.“

Fjölskylda

Eiginmaður Höllu er Sigurður G. Sverrisson, f. 12.7. 1962, yfirverkstjóri við Vegagerðina á Ísafirði. Þau eru búsett í Holti í Önundarfirði. Foreldrar Sigurðar eru hjónin Kristín Guðný Sigurðardóttir, f. 7.11. 1944 og Sverrir Sigurðsson, f. 12.9. 1941, búsett í Bolungarvík.

Börn Höllu og Sigurðar eru 1) Kristín Guðný, kennari í Reykjavík, f. 18.1. 1984, maki: Kjartan Hlöðversson; 2) Ólína Adda, sérfræðingur hjá skattinum á Ísafirði, f. 23.7. 1986, maki: Stefán Pétur Viðarsson; 3) Finnbogi Dagur, lögreglumaður á Ísafirði, f. 14.10. 1992, maki: Marín Elvarsdóttir, og 4) Anna Þuríður, íþróttafræðingur á Ísafirði, f. 27.7. 1995, maki: Harrison Applegate. Barnabörnin eru sjö.

Systkini Höllu: Eygló, f. 1946; Guðrún Jóna, f. 1949; Elísabet Alda, f. 1951, d. 1999; Guðný, f. 1952; Guðmundur Kort, f. 1954, d. 2021; Jóhannes, f. 1955; Kristján Sigurður, f. 1957, Finnbogi, f. 1958, Helga Dóra, f. 1960, Magnús, f. 1962, d. 1963, og drengur, fæddur andvana 1966.

Foreldrar Höllu voru hjónin Kristján Guðmundsson, f. 27.9. 1918, d. 28.3. 1988, bóndi á Brekku á Ingjaldssandi, og Árilía Jóhannesdóttir, 20.1. 1923, d. 31.3. 2014, húsmóðir á Brekku.