[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Alls sættu 2.332 einstaklingar og 23 fyrirtæki ákæru ákæruvaldsins hér á landi á síðasta ári, nokkru fleiri en á árinu 2022. Þar af voru 1.967 karlmenn eða 82,7%, 387 konur eða 16,3% og einn kynsegin

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Alls sættu 2.332 einstaklingar og 23 fyrirtæki ákæru ákæruvaldsins hér á landi á síðasta ári, nokkru fleiri en á árinu 2022. Þar af voru 1.967 karlmenn eða 82,7%, 387 konur eða 16,3% og einn kynsegin.

Þetta kemur fram í ársskýrslu og tölfræði ákæruvaldsins fyrir árið 2023 sem embætti ríkissaksóknara hefur birt. Á yfirliti yfir ríkisfang þeirra sem sættu ákæru á árinu 2023 kemur fram að langflestir voru með íslenskt ríkisfang eða 1.639, mun fleiri en á árinu á undan þegar þeir voru um 1.500. Næstflestir eru frá Póllandi eða 203 sem sættu ákæru í fyrra, 75 frá Litháen, 59 frá Albaníu, 54 frá Rúmeníu, 52 frá Lettlandi og 35 frá Bandaríkjunum.

Skipt eftir aldri voru flestir þeirra sem sættu ákæru á síðasta ári á aldrinum 25 til 39 ára. 367 voru á aldrinum 30 til 34 ára, 348 á aldrinum 35 til 39 ára en 321 var 25 til 29 ára. Fæstir sem sættu ákæru voru 70 ára eða eldri eða 28 og þar af voru 25 karlar og þrjár konur. Nær fjórfalt fleiri sem sættu ákæru voru á sjötugsaldri (60-69 ára) eða 103 (95 karlar og átta konur). Sé hins vegar litið á yngsta aldurshópinn, 13 til 19 ára, kemur fram að 212 sem voru á þeim aldri sættu ákæru á árinu (176 karlar og 36 konur).

12,8% fjölgun brotamála

Brotamál sem komu til meðferðar og voru afgreidd hjá ákæruvaldinu á seinasta ári voru 6.994, allt að 800 fleiri en á árinu á undan þegar þau voru 6.201 talsins, sem er 12,8% fjölgun milli ára. Flest brotamálin eftir embættum voru hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu eða 3.988 og fjölgaði þeim um 17,1% frá árinu á undan. Hjá lögreglustjóranum á Norðurlandi eystra voru málin 494 í fyrra en 435 árið áður og hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum voru brotamálin 416 en 392 á árinu á undan og hjá lögreglustjóranum á Suðurlandi fjölgaði málum úr 338 á árinu 2022 í 435 á síðasta ári. Málum fjölgaði í fyrra hjá öllum embættum sem fara með ákæruvald nema hjá lögreglustjóranum á Austurlandi þar sem heildarfjöldi mála var 24 í fyrra en 79 á árinu á undan og lögreglustjóranum í Vestmannaeyjum þar sem málin voru 67 á árinu 2022 en 54 í fyrra.

Heildarfjöldi afgreiddra mála héraðssaksóknara var 1.270 í fyrra, örlítið meiri en á árinu á undan.

26,6% fjölgun einstaklinga í gæsluvarðhaldi

Kveðinn var upp 241 gæsluvarðhaldsúrskurður á síðasta ári. Mun fleiri en á árinu 2022 þegar úrskurðirnir voru 198. Í fyrra sættu samtals 238 einstaklingar gæsluvarðhaldi, mun fleiri en á árinu 2022 þegar 188 einstaklingar voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, sem er 26,6% fjölgun á milli ára. Samtals voru þeir sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í fyrra í gæslu í 13.400 daga.

Í umfjöllun skýrslunnar um lögreglustjórasektir og umferðarlagabrot kemur fram að í árslok 2023 höfðu lögreglustjórar sent út sektarboð vegna 48.435 brota. Þar af hafði 46.171 sektarbrot verið greitt á árinu en það eru 95,3% af útsendum sektarboðum vegna sektarbrota. Oftast var sektað fyrir of hraðan akstur. Í umfjöllun um mál sem lokið er með sektargerð segir að 1.112 hafi verið vegna ölvunaraksturs og 677 vegna aksturs undir áhrifum ávana- og fíkniefna svo dæmi séu tekin.

Höf.: Ómar Friðriksson