Sumarbústaður Lögregla rannsakar málið sem manndráp.
Sumarbústaður Lögregla rannsakar málið sem manndráp. — Morgunblaðið/Sigmundur Sigurgeirsson
Gæsluvarðhald og einangrun tveggja manna í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á meintu manndrápi í uppsveitum Árnessýslu þann 20. apríl hefur verið framlengd til 10. maí. Héraðsdómur Suðurlands kvað upp þann úrskurð í gær en mennirnir hafa sætt gæsluvarðhaldi frá 21

Gæsluvarðhald og einangrun tveggja manna í tengslum við rannsókn lögreglunnar á Suðurlandi á meintu manndrápi í uppsveitum Árnessýslu þann 20. apríl hefur verið framlengd til 10. maí.

Héraðsdómur Suðurlands kvað upp þann úrskurð í gær en mennirnir hafa sætt gæsluvarðhaldi frá 21. apríl.

Málið er rannsakað sem manndráp en litháískur maður á fertugsaldri fannst látinn í sumarbústað í Kiðjabergi á Suðurlandi og sitja tveir landar hans í gæsluvarðhaldi. Jón Gunnar Þórhallsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, sagði í samtali við mbl.is á mánudag að lögreglan teldi sig vera komna með mynd á það sem gerðist í sumarbústaðnum. Vettvangsrannsókn er lokið.

„Vettvangurinn er ennþá innsiglaður og ef eitthvað fleira kemur upp getum við farið þangað aftur en að svo komnu er vettvangsrannsókn lokið,“ segir Jón Gunnar. Hann segir að rannsókninni miði vel og nú séu skýrslutökur í gangi. Að sögn Jóns hefur lögregla rætt við aðstandendur og óbein vitni auk sakborninga.