Það er komið fram mikið úrval af flottum og góðum rafmagnsbílum, sem er hið besta mál. Verðlagning þeirra þarf þó að vera eðlileg.
Það er komið fram mikið úrval af flottum og góðum rafmagnsbílum, sem er hið besta mál. Verðlagning þeirra þarf þó að vera eðlileg. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nýskráningum fólksbíla hefur fækkað um tæp 50% á milli ára það sem af er ári, ef tekið er mið af tölum frá því um miðjan apríl. Tæplega 2.200 bílar höfðu þá verið nýskráðir, samanborið við tæplega 4.300 á sama tíma í fyrra

Nýskráningum fólksbíla hefur fækkað um tæp 50% á milli ára það sem af er ári, ef tekið er mið af tölum frá því um miðjan apríl. Tæplega 2.200 bílar höfðu þá verið nýskráðir, samanborið við tæplega 4.300 á sama tíma í fyrra. Bílaleigurnar eru að vísu seinni að taka við sér en á sama tíma í fyrra og Innherji hefur heimildir fyrir því að bílaumboðin geri ráð fyrir, og miði pantanir sínar út frá því, að sala á nýjum bílum taki við sér eftir því sem líður á árið. Það á síðan eftir að koma í ljós hvort þær væntingar standist.

Þessar tölur eru ein birtingarmynd þess að landsmenn halda að sér höndum og einkaneysla er að dragast saman. Það rímar við þær tölur sem fyrir liggja um einkaneyslu á nýliðnum vetri. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam samdráttur einkaneyslu 2,3% og kortavelta á fyrsta ársfjórðungi þessa árs bendir til þess að einkaneysla sé enn að dragast saman (tölur um einkaneyslu liggja ekki fyrir en kortaveltan gefur góða vísbendingu um hana).

Það er nokkuð ljóst að háir vextir eru farnir að hafa veruleg áhrif á neyslu, sem er vissulega það sem þeim er ætlað að gera. Ætla má að áhrif þeirra séu þó ekki enn að fullu komin fram, það á til dæmis eftir að koma í ljóst hvort og þá hversu mikil áhrif þeir hafa á ferðalög, viðhald og framkvæmdir á heimilum, sölu á húsgögnum og þannig mætti áfram telja. Miðað við það sem komið hefur fram af hálfu Seðlabankans má gera ráð fyrir að vextir lækki ekki fyrr en veruleg kæling hefur átt sér stað í hagkerfinu, og við erum ekki enn komin á þann stað.

Óháð stöðunni í hagkerfinu, sem rétt er að muna að er til skemmri tíma í sögulegu samhengi, þá varpar nýskráning bíla upp mynd af öðrum raunveruleika. Hann er sá að áhugi landsmanna á rafmagnsbílum snýst fyrst og fremst um hagkvæmni og verð en ekki um loftslagskvíða eða samviskubit yfir losun. Eins og Morgunblaðið hefur áður fjallað um hefur sala á rafmagnsbílum dregist verulega saman það sem af er ári, eftir að ríkið hætti að niðurgreiða þá. Hlutfall rafmagnsbíla er rétt rúmlega 20% af nýskráðum bílum á árinu, hlutfall dísilbíla tæp 30%, tengiltvinnbílar og hybrid-bílar eru um 40% og bensínbílar um 10%.

Líkast til eiga rafmagnsbílar framtíðina fyrir sér, þá sérstaklega í löndum eins og Íslandi og Noregi þar sem hægt er að framleiða orku með sjálfbærum og umhverfisvænum hætti. Ástæðan fyrir því að fólk kaupir rafmagnsbíla er fyrst og fremst sú að þá losnar það við þann mikla kostnað sem felst í kaupum á bensíni og dísilolíu. Nú þegar verð á rafmagnsbílum er orðið eðlilegt á ný, og búið að leggja sérstaka skatta á notkun þeirra, fæst raunhæfari mynd af þeim áhuga sem fólk hefur á því að eignast slíka bíla. Í þessu eins og svo mörgu öðru tekur fólk ákvarðanir út frá heimilisbókhaldinu.