Fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og Hermann Sæmundsson hafa gert með sér samkomulag um flutning Hermanns í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hermann tekur við í dag, 1

Fjármála- og efnahagsráðherra, innviðaráðherra og Hermann Sæmundsson hafa gert með sér samkomulag um flutning Hermanns í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Hermann tekur við í dag, 1. maí. Þetta kemur fram í sameiginlegri tilkynningu frá ráðuneytunum.

Hermann hefur starfað í Stjórnarráði Íslands frá því í október 1996 en þá réðst hann til starfa sem sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga í félagsmálaráðuneytinu. Hann var skipaður í embætti skrifstofustjóra í sama ráðuneyti árið 2002. Frá 2004 til 2008 var hann fulltrúi félagsmálaráðuneytis og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í sendiráði Íslands í Brüssel en tók við sem skrifstofustjóri í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu að því loknu. Hermann var skipaður skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu í ársbyrjun 2011 en við uppskiptingu þess um mitt ár 2017 tók hann við stöðu skrifstofustjóra skrifstofu sveitarfélaga og byggðamála í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu. Hann var skipaður skrifstofustjóri stefnumála í forsætisráðuneytinu í október 2021 og ráðuneytisstjóri í innviðaráðuneytinu í maí 2023.

Hermann var settur ráðuneytisstjóri í félagsmálaráðuneytinu árin 2002 til 2004 og gegndi um langt skeið hlutverki staðgengils ráðuneytisstjóra og hefur því starfað í Stjórnarráði Íslands í hartnær 28 ár.

Fallið frá ráðningarferli

Embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytis var auglýst í Lögbirtingablaðinu þann 19. febrúar sl. Átta umsóknir bárust um stöðuna. Þriggja manna ráðgefandi hæfnisnefnd var skipuð til undirbúnings skipunar í embættið. Með flutningi Hermanns hefur ráðherra fallið frá því ráðningarferli sem hófst 19. febrúar sl. og nýtt sér heimild 36. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til að flytja annan embættismann í embætti ráðuneytisstjóra fjármála- og efnahagsráðuneytisins.