Bækur
Steinþór
Guðbjartsson
Glæpasagnahöfundurinn Ann Cleeves lokar hringnum í átta bóka seríu um lífið með öllum sínum kostum og göllum á Hjaltlandseyjum með Eldhita. Eldur í eiginlegri merkingu rammar inn söguna en óeiginlega merkingin er sterkari, þar sem hið góða og illa takast á, fegurðin og ljótleikinn, kærleikurinn og ofbeldið, ástin og grimmdin.
Hrafnamyrkur, fyrsta bókin í seríunni, kom út á íslensku fyrir um sjö árum. Þá skrifaði ég meðal annars í dómi að bókin væri „víðtæk fjölskyldusaga með áherslu á atburði líðandi stundar“. Þægileg glæpasaga í fámenni í náttúrufegurðinni á Hjaltlandseyjum, þar sem allt virtist vera slétt á yfirborðinu en vandamálin væru ekki síður þar en í fjölmenni.
Í stórum dráttum á þessi lýsing við um allar bækurnar, þó sumar séu í harðari kantinum. Eins og í fyrri sögum seríunnar er lögregluforinginn Jimmy Perez í aðalhlutverki í Eldhita. Að þessu sinni er áhersla lög á innri baráttu hans við lífið og tilveruna. Frá því Fran, unnusta hans, lést hefur sektarkennd kvalið hann og nú stendur hann frammi fyrir einni erfiðustu ákvörðun lífs síns. Sjálfstraustið er í molum og hann telur sig einskis virði. Eigið niðurrif kemur niður á vinnunni og þar er hann lengstum ekki sjálfum sér líkur. En þegar hann rífur sig upp úr aumingjaskapnum kemur í ljós úr hverju hann er gerður, svo gripið sé til frasa sem eigna má Guðjóni Þórðarsyni fyrrverandi knattspyrnuþjálfara.
Börn og unglingar koma töluvert við sögu og barnauppeldi er í raun þungamiðja. Foreldrar eru ekki alltaf barnanna bestir og svartur sauður leynist víða. Heimilisofbeldi er eitt og afskiptaleysi annað, en þegar þetta fer saman er ekki von á góðu. Vald er vandmeðfarið og ábyrgð gulls ígildi, en veldur hver á heldur. Samt er til of mikils mælst að gera börn að blórabögglum vegna vanrækslu fullorðinna.
Eldhiti er mjúkur og harður krimmi í senn, þar sem andstæður takast á í afmörkuðu umhverfi. Sagan er raunsæ lýsing á á lífi venjulegs fólks, ástum þess og sorgum, réttlæti og ranglæti, mildi og miskunnarleysi, umhyggju og kúgun að ónefndum alvarlegum glæpum. Því sem liðið er verður ekki breytt en eftir stendur vonin um betra líf.