Halldór Björn Baldursson og Zhenwei Wang frá Auvesta Edelmetalle AG eru sammála um að gull hafi í árþúsundir haldið kaupmætti sínum.
Halldór Björn Baldursson og Zhenwei Wang frá Auvesta Edelmetalle AG eru sammála um að gull hafi í árþúsundir haldið kaupmætti sínum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Innbyggðir eiginleikar gulls gera það að verkum að það hefur í árþúsundir haldið kaupmætti sínum og er sögulega séð talið vera ein besta vörnin gegn verðbólgu. Gull er einnig örugg höfn fyrir fjárfesta á viðsjárverðum tímum, til að mynda vegna stríðsátaka sem nú geisa í Úkraínu og Mið-Austurlöndum

Innbyggðir eiginleikar gulls gera það að verkum að það hefur í árþúsundir haldið kaupmætti sínum og er sögulega séð talið vera ein besta vörnin gegn verðbólgu. Gull er einnig örugg höfn fyrir fjárfesta á viðsjárverðum tímum, til að mynda vegna stríðsátaka sem nú geisa í Úkraínu og Mið-Austurlöndum.

Þetta segir Halldór Björn Baldursson, framkvæmdastjóri og eigandi gullmarkaðurinn.is, í samtali við ViðskiptaMoggann. Tilefnið er stofnun á íslenskum gullmarkaði sem að sögn Halldórs verður sá fyrsti sinnar tegundar hér á landi. Hann segir að vefsíða markaðarins, sem verður opnuð í september, geri landsmönnum kleift að fjárfesta í gullmyntum og -stöngum frá helstu gullframleiðendum heims.

Trygging gegn niðursveiflum

„Gull er raunveruleg verðmæti sem fólk getur fjárfest í á viðsjárverðum tímum og eiginleikar gulls gera það að verkum að það hækkar í verði. Af þeim sökum er gull góð trygging gegn niðursveiflum á fjármálamörkuðum,“ segir Halldór, spurður nánar um gullfjárfestingar.

Að sögn Halldórs mun gullmarkaðurinn gefa Íslendingum sem vilja hafa dreift eignasafn tækifæri til að fjárfesta með auðveldum hætti í gulli. Í því sambandi bendir hann á að eignasöfn fjármálafyrirtækja og fagfjárfesta séu almennt 10 til 20% gull, þar sem gullfjárfestingar gefi bæði góða ávöxtun og minnki áhættu.

„Hvað Íslendinga varðar þá höfum við kynnst upp- og niðursveiflum í meira mæli en aðrar þjóðir. Síldarbrestur, verðbólga eða fjármálakreppa eins og gerðist haustið 2008, þar sem íslenski hlutabréfamarkaðurinn þurrkaðist út og fólk tapaði sparifé sínu. Þrátt fyrir að gull beri ekki neina vexti, ólíkt peningum, getur gull mun síður misst verðmæti sitt eins og hlutabréf, skuldabréf og peningar geta gert,“ útskýrir hann.

Reglubundinn gullsparnaður

Aðspurður segir Halldór að það séu þrjár leiðir sem viðskiptavinir geta valið ef þeir fjárfesta í gulli í gegnum markaðinn.

„Fólk getur hafið reglubundinn sparnað frá 50 evrum á mánuði og upp úr. Þegar viðskiptavinir vilja leysa út gullsparnað sinn geta þeir selt gullið á markaðnum með einum músarsmelli og fengið peningana millifærða á reikninginn sinn. Í öðru lagi geta þeir fengið allt gullið eða hluta sent heim. Það er ekki mælt með því, þar sem Ísland er eina ríkið í Evrópu sem innheimtir 24% virðisaukaskatt af gullfjárfestingum. Í þriðja lagi getur fólk farið og sótt gullið sitt í höfuðstöðvar Auvesta, samstarfsaðila gullmarkaðarins, í München í Þýskalandi.“

Raunveruleg verðmæti

Spurður um samstarfsaðila segir Halldór að þýska fyrirtækið Auvesta Edelmetalle AG hafi gert honum kleift að setja á laggirnar gullmarkað á Íslandi. Auvesta sé með víðtæka reynslu og þekkingu á að kaupa og selja gull, enda sé þýski gullmarkaðurinn þroskaður og sá stærsti í Evrópu að hans sögn.

Zhenwei Wang, framkvæmdastjóri Auvesta, segir að fyrirtækið sjái tækifæri í að Íslendingar muni í auknum mæli fjárfesta í gulli.

„Ég skil þá afstöðu ef fólk vill fjárfesta í öðrum eignum en gulli í stöðugu efnahagsumhverfi. Hins vegar hafa vestræn ríki glímt við margskonar áskoranir sem eru til þess fallnar að við getum veitt viðskiptavinum okkar tækifæri til að fjárfesta í gulli og öðrum eðalmálmum með það fyrir augum að draga úr fjárfestingaáhættu,“ segir hann.

Zhengwei tekur undir með Halldóri og bendir á að gull hefur frá alda öðli síður tapað virði sínu í samanburði við aðrar fjárfestingar.

„Þar af leiðandi er gull hentug vörn gegn verðbólgu sem í grunninn stafar af seðlabönkum sem prenta of mikið af peningum. Gull er hins vegar þannig verðmæti sem ekki er hægt að prenta eða fjöldaframleiða í miklu magni,“ segir Zhenwei.