Tækifæri Í fjármálaáætlun er bent á tækifæri til þess að selja minnihluta eignarhlutar í Isavia til einkaaðila.
Tækifæri Í fjármálaáætlun er bent á tækifæri til þess að selja minnihluta eignarhlutar í Isavia til einkaaðila. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Í fjármálaáætlun sem fjármála- og efnahagsráðuneytið lagði fram fyrr í mánuðinum er því ranglega haldið fram að víða í Evrópu hafi einkaaðilar komið að rekstri flugvalla, eins og Isavia, þar sem þjóðhagslega mikilvægir innviðir, eins og flugbrautir eru, undanskildir

Andrea Sigurðardóttir

andrea@mbl.is

Í fjármálaáætlun sem fjármála- og efnahagsráðuneytið lagði fram fyrr í mánuðinum er því ranglega haldið fram að víða í Evrópu hafi einkaaðilar komið að rekstri flugvalla, eins og Isavia, þar sem þjóðhagslega mikilvægir innviðir, eins og flugbrautir eru, undanskildir.

Hið rétta er að slíkt fyrirkomulag þekkist ekki í Evrópu, að minnsta kosti gat blaðamaður ekki fundið þess nein dæmi. Ráðuneytið segir orðalag fullyrðingarinnar hafa verið ónákvæmt í skriflegu svari.

Gátu ekki nefnt dæmi

Í fjármálaáætlun segir orðrétt: „Þá hafa einkaaðilar víða í Evrópu komið að rekstri flugvalla, líkt og Isavia, þar sem þjóðhagslegir mikilvægir innviðir líkt og flugbrautir eru undanskildir.“ Morgunblaðið óskaði eftir dæmum um slíkt fyrirkomulag í Evrópu, en þeim var ekki að skipta. Í svari ráðuneytisins segir meðal annars:

„Orðalagið í seinni hluta setningarinnar er ónákvæmt og ekki alveg í samræmi við þá almennu umfjöllun sem stefnt var að. Í seinni hluta setningar er markmiðið með þessum hluta einkum að draga það fram að hægt er að undanskilja eignarhald á þjóðhagslega mikilvægum innviðum áður en ráðist er í sölu af þessum toga. Sem dæmi mætti nefna að eignarhald á landi Keflavíkurflugvallar er í beinni eigu ríkissjóðs og fjölmörg dæmi eru um að flugvellir leigi eða hafi langtímaafnot af landi og jafnvel flugstöð, o.fl. undir rekstur flugvalla. Keflavíkurflugvöllur verði áfram megin alþjóðaflugvöllur landsins.“

Tækifæri til sölu

Í svari ráðuneytisins kemur aukinheldur fram að með umfjölluninni hafi verið vísað til ríkisfélagsins Isavia í því skyni „að vekja athygli á því að tækifæri gætu verið til að selja t.d. minnihluta eignarhlutar í félaginu með sambærilegum hætti og gert hafi verið víða í Evrópu“.

Að öðru leyti sé í þessum kafla, sem fjallar um umbætur í starfsemi hins opinbera, fyrst og fremst að finna almenna umfjöllun um opinbera starfsemi í víðum skilningi, þar sem farið sé yfir nokkur atriði sem hægt er að bæta eða endurskoða í rekstri ríkisins. Í kaflanum er m.a. greint frá því að verið sé að skoða með hvaða hætti sé hægt að draga úr umsvifum og selja eða ráðstafa eignum ríkisins með það að markmiði að lækka skuldastöðu ríkissjóðs.

Ráðuneytið segir að í samhengi við hugsanlegt sölutækifæri á minnihluta eignarhlutarins í Isavia þurfi að huga að samkeppnishæfni Íslands á alþjóðamörkuðum, sem eigi mikið undir greiðum samgöngum, hvort sem er innanlands eða til annarra landa. Þannig þurfi að líta á allt samgöngukerfið og einstaka hluta þess, svo sem vegakerfið, hafnir og flugvelli, sem eina heild frekar en að einblína á hvern þátt fyrir sig.

Liðkað fyrir aðkomu fjárfesta

Árið 2019 voru samþykktar breytingar á skipulagi Isavia þar sem rekstur innanlandsflugvalla og flugleiðsöguþjónusta færðust í dótturfélög en rekstur Keflavíkurflugvallar varð eftir hjá móðurfélaginu. Þessar breytingar hafa liðkað fyrir aðkomu fjárfesta að Keflavíkurflugvelli, enda liggja stærstu viðskiptatækifærin þar.

Einkarekstur

Ekki er óalgengt að fólk tali um allar verslanir og veitingastaði á Keflavíkurflugvelli sem fríhöfnina.

Í Brottfararsal flugstöðvarinnar er aftur á móti fjöldi einkaaðila með rekstur verslana og veitingastaða sem ekki tilheyra fríhöfninni.

Lengi hefur verið til umræðu að bjóða rekstur fríhafnarverslananna út til einkaaðila.

Höf.: Andrea Sigurðardóttir