Kristín Heiða Kristinsdóttir
khk@mbl.is
Við höfum verið með stífar dansæfingar undanfarið, enda engin leið að syngja heila Júróvisjóntónleika og standa grafkyrr allan tímann,“ segir Steinunn Björk Bragadóttir, kórmeðlimur í Hinsegin kórnum, en yfirskrift vortónleika kórsins þetta árið er Umhverfis Júróheiminn. Kórinn ætlar þar að bjóða upp á heimsreisu um hátt í 70 ára sögu Júróvisjón með tvennum tónleikum sem verða í Guðríðarkirkju í dag og á morgun, 2. og 3. maí. Kórinn ætlar m.a. að syngja Júróvisjónlög Siggu Beinteins, Selmu, Páls Óskars, Abba, Olsen-bræðra, Bobbysocks og Loreen. Ekki kemur á óvart að kórstýran, Helga Margrét Marzellíusardóttir, hafi leitað til Steinunnar þegar ákveðið var að fara í Júróvisjónheimsreisu, því að Steinunn er forfallinn Júróvisjónaðdáandi og þekktur Júróvisjónsérfræðingur. Sumir segja hana vera alfræðiorðabók um keppnina.
„Keppnin hefur alltaf verið mjög vinsæl innan hinsegin samfélagsins og síðustu ár hefur keppnin verið góður vettvangur fyrir hinsegin fólk til að koma fram með sína hæfileika og vera sýnilegt. Innan Hinsegin kórsins eru margir Júróvisjónaðdáendur og það hefur fyrir vikið verið nefnt nokkuð oft innan hópsins að syngja Júróvisjónlög. Við ákváðum að láta vaða núna og stjórnandinn hafði samband við mig og annan meðlim kórsins, Rannveigu Sigurvinsdóttur, en það vill svo skemmtilega til að við erum par. Við Rannveig fengum þá heimavinnu að finna Júróvisjónlög sem annaðhvort væru skemmtileg eða byggju yfir einhverri sérstakri hinsegin tengingu. Við ætlum að heiðra bæði erlend og íslensk Júróvisjónlög á tónleikunum, sum eru uppáhaldslög einhverra kórmeðlima, önnur eru lög sem eru góð í kóraútsetningum. Við syngjum auðvitað lagið sem Páll Óskar fór með til að keppa fyrir Íslands hönd 1997, en hann var fyrsti einstaklingurinn í sögu keppninnar sem tók þátt í Júróvisjón og er opinberlega hinsegin. Auðvitað hafði fjöldi hinsegin fólks tekið þátt á undan honum, en komið seinna út úr skápnum. Strax árið eftir að Páll Óskar tók þátt var sigurvegari keppninnar trans manneskja, fyrsti opinberlega hinsegin einstaklingur sem sigrar í keppninni, Dana International, fyrir hönd Ísraels. Með þátttöku sinni hjálpaði Páll Óskar til við að breyta keppninni, en hún var orðin svolítið stöðnuð. Hann hristi rækilega upp í öllum fjöðrunum með sínu húrrandi hinsegin atriði. Keppnin varð opnari í framhaldinu og atriðin fjölbreyttari.“
Speglar vináttu og átök þjóða
Steinunn skrifaði BA-ritgerð í fjölmiðlafræði þar sem hún fjallaði um birtingarmynd hins pólitíska landslags í Evrópu í Júróvisjónkeppninni.
„Rannsóknarspurningin hjá mér var hvort hægt væri að líta á Júróvisjón sem eitthvað meira en árlegan sjónvarpsþátt, eða hvort hægt væri að líta á keppnina sem eins konar sögulega heimild. Niðurstaða mín var að klárlega er hægt að sjá í keppninni hvernig hið pólitíska landslag Evrópu breytist. Ég tók fyrir árin frá 1990 til 2021 og skoðaði hina ýmsu viðburði, til dæmis fall Sovétríkjanna og fall Júgóslavíu, en í framhaldi af því koma mörg ný lönd inn í keppnina. Ef pólitískar deilur eru á milli landa, þá kemur það strax fram í keppninni, til dæmis voru Rússar og Úkraínumenn góðir vinir í keppninni fram til ársins 2014, þjóðirnar gáfu hvor annarri alltaf mörg stig. Eftir að Rússland innlimaði Krímskagann þá sá þess glögglega merki í stigagjöfinni, Rússar og Úkraínumenn hættu að gefa hvorir öðrum stig. Við höfum líka dæmi í hina áttina, þar sem vinátta milli þjóða kemur í ljós, Balkanlöndin eru til dæmis mjög dugleg að gefa hvert öðru stig, Grikkland og Kýpur gefa hvort öðru nánast alltaf 12 stig, það sætir tíðindum ef það er ekki þannig. Sterk samstaða og vinátta Norðurlandaþjóðanna birtist í því að í 95 prósent tilfella gefa þær einhverri Norðurlandaþjóð 12 stig. Þannig speglast bæði samstaða þjóða og átök í þessari keppni. Niðurstaða mín er sú að það er hægt að líta á Júróvisjon sem eitthvað meira en árlegan skemmtiþátt, þetta er í raun söguleg heimild um ástandið í Evrópu hverju sinni,“ segir Steinunn og bætir við að sú staðreynd að Úkraína vann keppnina sama ár og rússneski herinn réðst þar inn, sé mest áberandi dæmið um hvernig pólitískt ástand í Evrópu hefur bein áhrif á keppnina.
„Ári eftir að múrinn féll í Þýskalandi sigraði Ítalía í keppninni með lagi sem hafði beina tengingu við þann sögulega viðburð, það hét: Sameinuð Evrópa. Lagið frá Austurríki það sama ár hét Enga fleiri múra og norska lagið hét Brandenburgarhliðið. Þetta eru dæmi um jákvæða pólitíska birtingarmynd. Þegar Conchita Wurst sigraði, var það í raun stuðningsyfirlýsing fyrir hinsegin samfélagið. Hún er ekki trans heldur drag-persóna austurrísks tónlistarmanns sem heitir réttu nafni Tom Neuwirth. Þessi sigur er í raun bein stuðningsyfirlýsing við hinsegin samfélagið, sem er auðvitað samfélagsleg pólitík.“
Bömmer þegar allt er afstaðið
Steinunn hefur farið sex sinnum út til að vera viðstödd sjálfa Júróvisjónkeppnina og í fyrra fór hún með Rannveigu konu sinni, en hún var þá að fara í fyrsta sinn.
„Ég hef ekki farið í Júróvisjónpartí á Íslandi síðan 2014, að undanskildu covid-árinu 2021, ég hef annaðhvort verið úti á keppninni eða verið stödd annars staðar í útlöndum að horfa á keppnina með vinum mínum. Að vera á staðnum er geggjuð upplifun, maður er í einhvers konar kúlu í heila viku, stundum í tíu daga. Þetta er stíf dagskrá hvern einasta dag, sem er einvörðungu Júróvisjóntengd. Ýmist eru það tónleikar eða djamm, en sérstakir skemmtistaðir eru fyrir keppnina sem heita Euro Club, og þar er einvörðungu spiluð Júróvisjóntónlist og þar eru alls konar viðburðir, til dæmis koma fram gamlar kempur frá landinu þar sem keppnin er haldin. Ég veit nánast ekki hvað er að gerast utan Júróvisjónkúlunnar á meðan ég er stödd inni í henni, ég gleymi til dæmis alltaf að hringja í bróður minn sem á afmæli um þetta leyti. Svo kem ég heim og þá tekur við sálarástand sem er til hugtak yfir, Post-Júróvisjón-Depression. Íslensku Júróvisjónaðdáendasamtökin gerðu íslenska þýðingu sem er skammstöfuð ESB, eða Eftirsöngvakeppnisbringsmalaskottan. Þetta er vel þekkt ástand meðal Júróvisjónaðdáenda og getur varað lengi. Þetta er bömmer, að allt sé búið og að þurfa að vakna aftur til raunveruleikans.“