Geir Áslaugarson
geir@mbl.is
Fjölmennt var í miðbæ Reykjavíkur í gær, þar sem öll helstu verkalýðsfélög landsins fögnuðu alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins í miklu blíðviðri. Boðuðu þau til kröfugöngu, þar sem gengið var frá Hallgrímskirkju niður á Ingólfstorg, þar sem blásið var til útifundar. VR hélt fjölskylduhlaup á Klambratúni áður en haldið var í kröfugöngu félaganna og Efling bauð fólki á fjölskylduhátíð að fundi loknum í Kolaportinu.
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar og Þórarinn Eyfjörð formaður Sameykis fluttu ávörp á fundinum. Sólveig Anna gagnrýndi íslensk stjórnvöld harkalega fyrir stuðning sinn við Ísrael í átökunum fyrir botni Miðjarðarhafs. Sagði hún stjórnvöld þjást af „sjúkri undirgefni“ gagnvart Bandaríkjunum og krafðist þess að þau stæðu með fólkinu í Palestínu.
Hún hrósaði einnig Eflingarfólki fyrir eljusemi og fyrir að hafa fengið valdastétt Íslands til að taka tillit til hagsmuna stéttarfélagsins á nýliðnum vetri. „Fjölbreytni okkar og samstaða er raunverulegt hreyfiafl breytinga og framfara í íslensku samfélagi,“ bætti hún við. Sólveig Anna sagði jafnframt vinnuaflið skapa verðmætin og viðhalda öllu samfélaginu. „Vinnuaflið okkar mun gera okkur ósigrandi,“ sagði Sólveig Anna.
Verkalýðsfélögin boðuðu til kröfugangna víða um land. Á Akureyri var boðað til kröfugöngu frá Alþýðuhúsinu og hátíðardagskrár í Hofi. Er talið að á fimmta hundrað manns hafi verið í göngunni, og að hún sé þá sú fjölmennasta sem farin hafi verið fyrir norðan. Guðmundur Helgi Þórarinsson formaður VM og Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ fluttu þar ávörp. Yfirskrift dagsins að þessu sinni var „Sterk hreyfing – sterkt samfélag“, en Finnbjörn sagði í ávarpi sínu að hún vísaði til þess að verkalýðshreyfingin hefði öðrum fremur mótað Ísland sem velferðarsamfélag.