Stjörnukokkurinn Hrefna Rósa Sætran elskar að grilla hamborgara og hennar uppáhalds þessa dagana er fylltur kolagrillaður hamborgari.
Stjörnukokkurinn Hrefna Rósa Sætran elskar að grilla hamborgara og hennar uppáhalds þessa dagana er fylltur kolagrillaður hamborgari. — Ljósmynd/Björn Árnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í tilefni þess að sumarið er komið og að það stefnir í grillsumar deilir Hrefna með lesendum Morgunblaðsins uppskriftinni að sínum uppáhaldshamborgara sem hún lofar að eigi eftir að slá í gegn. Hrefna er landsmönnum vel kunnug, menntaður…

Sjöfn Þórðardóttir

sjofn@mbl.is

Í tilefni þess að sumarið er komið og að það stefnir í grillsumar deilir Hrefna með lesendum Morgunblaðsins uppskriftinni að sínum uppáhaldshamborgara sem hún lofar að eigi eftir að slá í gegn.

Hrefna er landsmönnum vel kunnug, menntaður matreiðslumeistari og eigandi Fiskmarkaðarins, Grillmarkaðarins, Uppi bar, Skúla Craftbar og La Trattoria á Hafnartorgi. Auk þess er hún sjónvarpskokkur og hefur gefið út nokkrar matreiðslubækur svo fátt sé nefnt. Það er því ekki amalegt að fá hana til að svipta hulunni af sínum uppáhaldshamborgara fyrir sumargrillið.

„Ég grilla mjög mikið árið um kring. Við erum með kolagrill heima og svo pítsuofn sem við kveikjum upp í með eldivið. Við erum hrifin af því að elda mat með og á eldi. Það er einhver stemning í því. Bragðið verður líka svo gott. Þegar maður eldar hamborgara þá er fólk stundum að elda þá of lítið en það á alltaf að elda hamborgara alveg í gegn. Ég elska hamborgara. Bæði út af því að þeir eru góðir og svo kvartar enginn þegar það eru hamborgarar í matinn. Þegar maður fyllir þá svona þá fær maður beikon og ost í hverjum bita. Mæli með að prufa ykkur áfram með allskonar fyllingar. Svo gott og skemmtileg tilbreyting. Síðan er lag að velja sitt uppáhaldsgrænmeti á hamborgarann og leyfa hverjum og einum að velja sitt. Dressingin sem mér finnst best á þennan hamborgara er japanskt majó sem bragð er af. Grillaður hamborgari er nokkuð sem allir í fjölskyldunni minni elska,“ segir Hrefna með bros á vör og hlakkar til grillsumarsins.

Grillaður hamborgari fylltur
með stökku beikoni og maribo-osti með límónumajónesi

4 hamborgarar

650 g nautahakk

1 bréf beikonkurl

8-12 sneiðar af maribo-osti

salt og pipar til að krydda með

olía til að steikja beikonið

Setjið beikonið á pönnu með vel af olíu. Setjið svo pönnuna á miðlungshita og leyfið beikoninu að steikjast í olíunni þar til það verður stökkt. Sigtið beikonið frá olíunni. Skiptið nautahakkinu niður í 8 svipað stórar kúlur. Gerið þunna hamborgara úr kúlunum. Setjið stökkt beikonkurl og ost inn í og lokið svo með öðrum hamborgara. Kryddið til með salti og pipar. Grillið svo hamborgarana í 4-5 mínútur á hvorri hlið.

Meðlæti og samsetning

4 stk. uppáhaldshamborgarabrauðin þín og uppáhaldsgrænmetið þitt

Hrefna setti salat, agúrku, papriku, tómat og rauðlauk á hamborgarana sína.

Japanskt majó (uppskrift hér fyrir neðan)

Japanskt majó

100 g japanskt majónes

1 stk. límóna, límónusafinn og börkur

¼ búnt kóríander, fínt saxað

1 msk. hlynsíróp

smá habanero-chili (hægt að nota hvaða chili sem er eða jafnvel tabasco sósu)

salt og pipar eftir smekk

Settu allt hráefnið í skál og blandaðu vel saman. Kryddaðu með salti og pipar.

Höf.: Sjöfn Þórðardóttir