Staða íslensks efnahagslífs og opinberra fjármála er góð í samanburði við flest önnur lönd í Evrópu, að mati fjármálaráðs, en það skilaði árlegri álitsgerð sinni á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á þriðjudaginn

Staða íslensks efnahagslífs og opinberra fjármála er góð í samanburði við flest önnur lönd í Evrópu, að mati fjármálaráðs, en það skilaði árlegri álitsgerð sinni á fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar á þriðjudaginn. Segir í álitsgerðinni að íslenskt efnahagslíf hafi orðið mun fjölbreyttara á síðustu áratugum en áður var og viðbragðsþróttur þess við áföllum aukist. Telur ráðið þó þörf á að huga betur að því að verja íslenskt efnahagslíf fyrir áföllum.

Njáll Trausti Friðbertsson varaformaður fjárlaganefndar segir í samtali við Morgunblaðið í dag að staðan sé mjög góð og í raun furðugóð miðað við þau áföll sem hafa dunið á undanfarin fimm ár. „Við stöndum miklu betur en við gerðum þegar við vorum í fjárlaganefnd í mars 2020, við upphaf kórónuveirufaraldursins, og vorum að rýna í áætlunina fyrir árin 2021-2025. Sem betur fer hafa horfurnar ekki ræst eins og þá var spáð. Þegar horft er á stóru myndina hefur þetta allt farið mun betur en á horfðist þá.“ » 4