Tímamótadómur Jóna Þórey segir að til að tryggja réttarríkið verði dómstólar að geta tekið á lögum og reglum.
Tímamótadómur Jóna Þórey segir að til að tryggja réttarríkið verði dómstólar að geta tekið á lögum og reglum. — Morgunblaið/María
Nýlegur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um loftslagsmál hefur vakið mikla athygli. Mannréttindalögfræðingurinn Jóna Þórey Pétursdóttir segir í Dagmálum á mbl.is að dómurinn byggist á rétti einstaklings til þess að vera frjáls frá umhverfislegum skaða

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Nýlegur dómur Mannréttindadómstóls Evrópu um loftslagsmál hefur vakið mikla athygli. Mannréttindalögfræðingurinn Jóna Þórey Pétursdóttir segir í Dagmálum á mbl.is að dómurinn byggist á rétti einstaklings til þess að vera frjáls frá umhverfislegum skaða.

Jóna Þórey lauk meistaranámi í lögfræði við Háskóla Íslands og tók síðan aðra meistaragráðu í mannréttindalögfræði frá Háskólanum í Edinborg. Í náminu í Edinborg segist hún hafa fengið annað sjónarhorn en hér heima enda var kennsla þar öðruvísi og fjölbreyttara fræðafólk sem sinnti kennslu.

Á námsárum sínum var hún um tíma forseti stúdentaráðs og ungmennafulltrúi Íslands á sviði mannréttinda hjá Sameinuðu þjóðunum. Hún sótti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna þar sem hún segir að mikið hafi verið rætt um að rétturinn til umhverfis væri sjálfstæð mannréttindi.

Viðurkenndur réttur

„Það er ekki eitthvað sem er nýtt af nálinni í lögfræði, það þekkist í yfir 150 ríkjum þar sem rétturinn til umhverfis er viðurkenndur í stjórnarskrá eða löggjöf, þó það sé ekki hér á Íslandi. Í október 2021 og síðan í júní 2022 viðurkenndu Sameinuðu þjóðirnar þennan rétt sérstaklega með einróma ályktunum, Ísland var þar á meðal, og viðurkenndu þannig að rétturinn til umhverfis væri sjálfstæð réttindi.“

Þetta sem þú ert að tala um birtist á mjög áþreifanlegan hátt í dómi Mannréttindadómstóls Evrópu fyrir stuttu. Það voru reyndar nokkur mál fyrir dómnum sem sneru að umhverfisrétti og sumum þeirra var vísað frá, en ekki máli svissneskra kvenna sem dæmt var í.

„Dómurinn kvað upp úrskurð í þremur málum sama daginn. Tveimur var vísað frá en í svissneska málinu sem þú vísar til, voru svissneskar konur, félagasamtök eldri kvenna með yfir tvö þúsund konum. Þær lögðu meðal annars fram læknisfræðileg gögn sem sýndu fram á hvernig hitabylgjur höfðu áhrif á heilsu þeirra og líf og lífsgæði. Dómstóllinn sá að þær voru búnar að tæma allar kæruleiðir og málið komst því að.“

Ýmsir hafa gagnrýnt þessa niðurstöðu og sumir telja að dómstóllinn sé kominn út fyrir valdsvið sitt.

„Það sem þarf að hafa í huga í þessu samhengi, og dómstóllinn tekur aðeins á í dóminum, er að til þess að tryggja réttarríkið, tryggja að lögum sé framfylgt og lagareglum sé fylgt af löggjafa og framkvæmdarvaldi, þá verði dómstólar að geta tekið á lögum og reglum. Mannréttindasáttmálinn er lög, hann hefur ígildi laga, hefur til dæmis verið lögfestur á Íslandi, og þegar það eru einhver afskipti af réttindum sem sáttmálinn tryggir, eins og líf, vellíðan og heilsa fólks, verða dómstólar að geta tekið á því hvernig þessi réttindi eru tryggð.

Þó að Parísarsáttmálinn sé pólitískt plagg að mestu og loftslagsmálin oft talin stefnumarkandi og ekki bein lög, þá verða þau málefni laganna þegar þau hafa bein áhrif á mannréttindi. Dómstóllinn fer mjög ítarlega yfir það að hann getur ekki litið fram hjá staðreyndum, kemst ekki hjá því að takast á við stöðuna sem er komin upp í vísindunum, í loftslagsmálum, og áhrifunum sem þetta hefur á fólk og á réttindi þess.

En hann býr að sama skapi til mjög háan þröskuld fyrir einstaklinga til að koma málum að. Fyrirsjáanlega er mjög erfitt fyrir einstakling, nánast útilokað, að koma máli að fyrir dómstólnum vegna loftslagsbreytinga, því að afleiðingarnar þurfa að vera stórkostlegar og beinar.“

Hvaða áhrif gæti þessi dómur haft hér á landi?

„Það er mjög erfitt að koma svona málum fyrir íslenska dómstóla. Þeir eru gjarnir á að vísa málum frá af því að skilyrðin eru svo ströng hvað varðar persónulega hagsmuni sem þurfa að vera til staðar. Því að félagasamtök geti komist að með málefni fyrir dómstóla vegna sameiginlegra hagsmuna er sniðinn mjög þröngur stakkur hér og félagasamtök, sérstaklega umhverfissamtök, eru ekki með jafn ríkan aðgang að dómstólum og tíðkast erlendis.“

Höf.: Árni Matthíasson