Brúðkaup Garðar Thór, Elva Dögg, börnin, foreldrar Garðars og móðir Elvu.
Brúðkaup Garðar Thór, Elva Dögg, börnin, foreldrar Garðars og móðir Elvu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Garðar Thór Cortes fæddist 2. maí 1974 í Reykjavík. Hann er alinn upp bæði á Íslandi og í Bretlandi og gekk í skóla í báðum löndum. Grunnskólagangan var þó nánast öll í Álftamýrarskóla. Garðar fór í Menntaskólann við Hamrahlíð og varð stúdent þaðan

Garðar Thór Cortes fæddist 2. maí 1974 í Reykjavík.

Hann er alinn upp bæði á Íslandi og í Bretlandi og gekk í skóla í báðum löndum. Grunnskólagangan var þó nánast öll í Álftamýrarskóla. Garðar fór í Menntaskólann við Hamrahlíð og varð stúdent þaðan. Samhliða menntaskólanámi var hann í Tónlistarskólanum í Reykjavík og lærði þar á kornett. Eins stundaði hann söngnám við Söngskólann í Reykjavík, sem faðir hans, Garðar Cortes, stofnaði á fæðingarári Garðars Thórs, árið 1974. Garðar lærði hjá Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur og fleirum.

Eftir útskrift frá Söngskólanum í Reykjavík fór Garðar í tónlistarháskóla í Vínarborg og síðan í Konunglega tónlistarháskólann í London. Hann sótti svo frekara nám í söng í New York, Kaupmannahöfn og Þýskalandi. Fyrir fáum árum bætti hann við sig menntun og kláraði meistaragráðu í menningarstjórnun frá Háskólanum á Bifröst.

Garðar varð landsþekktur þegar hann lék Nonna í vinsælum sjónvarpsþáttum um Nonna og Manna sem voru byggðir á ævi rithöfundarins Jóns Sveinssonar. Þættirnir voru sýndir víða um Evrópu og náðu miklum vinsældum, einkum á Íslandi og í Þýskalandi.

Árið 1994 lék Garðar svo Tony í söngleiknum Sögum úr Vesturbænum (West Side Story) sem markaði upphaf ferils hans sem atvinnusöngvara. Eftir það hefur hann starfað víða um heim, sungið í óperuhúsum víðs vegar og ferðast landa á milli.

Garðar Thór hefur sungið mörg stærstu sönghlutverk óperubókmenntanna og tekið þátt í fjölda uppfærslna Íslensku óperunnar og víðar. Hann hefur gefið út fjóra geisladiska í eigin nafni og sungið inn á fjölda annarra. Geisladiskur hans Cortes var tilnefndur til Brit-tónlistarverðlaunanna árið 2008. Garðar hefur tekið þátt í uppfærslum söngleikja víða um heim og fór með hlutverk Raouls í Óperudraugnum á West End í London og hlutverk Óperudraugsins í París og Hamborg. Hann söng einnig hlutverk Óperudraugsins um gervöll Bandaríkin í söngleiknum Love Never Dies á árunum 2017-2018. Hann hefur sungið á BBC Proms-tónlistarhátíðinni, sungið margoft í Royal Albert Hall í London sem og í Carnegie Hall í New York og fjöldamörgum öðrum tónleika- og óperuhúsum.

Síðustu árin hefur Garðar dvalið á Íslandi eftir ferðalög áranna á undan og er söngkennari og aðstoðarskólastjóri Söngskólans í Reykjavík.

Garðar Thór er mikill fjölskyldumaður og líður hvergi betur en heima í faðmi fjölskyldunnar. Hans helstu áhugamál þess utan er hestamennska sem hann kynntist ungur í gegnum föður sinn. Hann hefur gaman af ferðalögum með fjölskyldu og vinum, bæði innan lands sem utan.

Garðar Thór og Elva Dögg giftu sig 14. febrúar 2020, rétt áður en heimsfaraldur kórónuveirunnar skall á, en hafa verið í sambandi í tíu ár. Þau eiga samtals fjögur börn, sem öll stunda nám á mismunandi skólastigum og búa að hluta til eða öllu leyti hjá þeim í Vesturbænum.

Fjölskylda

Eiginkona Garðars Thórs er Elva Dögg Melsteð, f. 14.2. 1979, aðstoðarmaður forstjóra Rio Tinto á Íslandi. Foreldrar Elvu Daggar: hjónin Símon Melsteð, f. 25.9. 1939, d. 4.10. 1983, bifvélavirki, og Laufey Erla Kristjánsdóttir, f. 17.9. 1940, fv. starfsmaður á leikskóla, búsett í Reykjavík.

Fyrri maki Garðars var Tinna Lind Gunnarsdóttir, f. 18.8. 1979, forstöðumaður skipulags, framleiðslu og ferla í Þjóðleikhúsinu.

Börn Garðars og Elvu eru Matthildur María Magnúsdóttir (stjúpdóttir Garðars), f. 22.2. 2002, Gylfi Þór Melsteð (stjúpsonur Garðars), f. 1.5. 2004, Egill Tómas Magnússon (stjúpsonur Garðars), f. 12.9. 2009, og Kormákur Cortes (sem Garðar á með fyrri maka), f. 25.10. 2010.

Systkini Garðars eru Sigrún Björk Cortes (hálfsystir í föðurætt), f. 21.12. 1963, kennari og býr í Reykjavík, Nanna Maria Cortes, f. 3.1. 1971, óperusöngvari og býr í Ósló, Noregi, og Aron Axel Cortes, f. 25.9. 1985, óperusöngvari og býr í Garði.

Foreldrar Garðars: hjónin Garðar Emanuel Cortes, f. 24.9. 1940, d. 14.5. 2023, óperusöngvari, óperustjóri, hljómsveitarstjóri og skólastjóri, og Krystyna Maria Blasiak Cortes, f. 31.7. 1948, píanóleikari, nú búsett í Kópavogi.