Dómari Baudenbacher var forseti EFTA-dómstólsins 2003 til 2017. Hann er fæddur í Sviss og verður 77 ára í haust.
Dómari Baudenbacher var forseti EFTA-dómstólsins 2003 til 2017. Hann er fæddur í Sviss og verður 77 ára í haust. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) í Strassborg kvað upp þann dóm 9. apríl síðastliðinn að svissneska ríkið hefði brotið gegn rétti kvenna með því að vernda þær ekki nógsamlega fyrir miklum hitum, sem rekja mætti til hlýnunar af mannavöldum.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) í Strassborg kvað upp þann dóm 9. apríl síðastliðinn að svissneska ríkið hefði brotið gegn rétti kvenna með því að vernda þær ekki nógsamlega fyrir miklum hitum, sem rekja mætti til hlýnunar af mannavöldum.

Carl Baudenbacher, fyrrverandi forseti EFTA-dómstólsins, þekkir sem Svisslendingur vel til málsins.

Spurður á hve lagalega traustum grunni dómurinn var felldur kveðst Baudenbacher vera honum ósammála.

„Ég tel að dómurinn sé rangur. MDE hefur fundið upp grundvallarréttindi sem hvergi er getið um í Mannréttindasáttmálanum. Tekið undir að eldri konur séu fórnarlömb, jafnvel þótt lífslíkur kvenna í Sviss séu umtalsvert hærri en karla. Fyrrverandi forseti hæstaréttar í Sviss benti svo á að dómurinn höfðaði til vissra gilda en segði ekki til um hvernig á að framfylgja þeim.“

Mun dómurinn setja fordæmi?

„Tíminn mun leiða það í ljós.“

Fær ekki hljómgrunn

Hvaða áhrif mun hann hafa í Sviss? Hefur hann einhver raunveruleg áhrif á stefnu stjórnvalda?

„Dómnum var ekki vel tekið af meirihlutanum í Sviss. Jafnvel hófsöm dagblöð hafa lýst honum sem „fráleitum“. Sú staðreynd að ríki sem er aðeins með minniháttar framlag, ef þá nokkuð, til loftslagsbreytinga skuli vera gert að skotspæni alþjóðlega þykir vera úr hófi. En vinstrimenn og græningjar munu auðvitað gera alls kyns kröfur. Þeir kunna, eftir allt, að eyða fé sem aðrir hafa aflað.“

Áttu von á því að dómurinn muni leiða til annarra lögsókna fyrir öðrum dómstólum í Sviss?

„Markmiðið er augljóslega að opna flóðgáttirnar, ef ekki aðeins í Sviss þá einnig víðar. Sviss er með beint lýðræði. Árið 2021 hafnaði almenningur lagasetningu um koldíoxíð. Samkvæmt skilningi Svisslendinga þarf alþjóðlegur dómstóll ekki að beita sér hér. En til eru aðrir alþjóðlegir dómstólar sem kunna að vera móttækilegir fyrir nálgun dómsins í Strassborg.

Hinn 9. janúar 2023 óskuðu, svo að dæmi sé tekið, utanríkisráðherrar Síle og Kólumbíu eftir ráðgefandi áliti frá mannréttindadómstóli í Suður-Ameríku (IACtHR) varðandi umfang opinberra skuldbindinga vegna viðbragða við „neyðarástandi í loftslagsmálum“, samkvæmt alþjóðlegum mannréttindalögum og, ekki síst, sáttmála Bandaríkjanna um verndun mannréttinda (e. American Convention on Human Rights).“

Skipulagt af Grænfriðungum

Gætu konurnar fjórar (ein er látin), og samtök eldri kvenna, sem fóru fram með málið (KlimaSeniorinnen Schweiz), krafið svissneska ríkið um skaðabætur?

„Ég veit það ekki. En ég tel svo ekki vera. Þú ættir að vita að allt var þetta skipulagt og fjármagnað af Grænfriðungum. Gömlu konurnar gengu fram undir því yfirskini að vera málsaðilar.“

Einn helsti mælikvarðinn á hækkandi hitastig í Sviss er hop jökla í Ölpunum. En vísindalegar mælingar hófust fyrir aðeins nokkrum kynslóðum. Hversu lagalega traustur er dómurinn hvað varðar hinn vísindalega bakgrunn „loftslagsbreytinga af mannavöldum“?

„MDE hefur einfaldlega tekið upp kenningar þeirra sem halda þessu fram. Að mínu áliti eru yfirlýsingar um orsakasamhengið ekki meistaraverk.“

Vafi um sannleikann

Dómstóllinn vísar jafnframt til Milliríkjanefndar SÞ um loftslagsbreytingar (IPCC) sem kennivalds. Áhrif nefndarinnar í loftslagsvísindum eru sem slík ekki dregin í efa í vísindasamfélaginu. En getur dómstóll álitið nýlegar vísindakenningar í loftslagsvísindum vera algildan sannleik?

„Ég tel það vafasamt.“

Með líku lagi kemst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að svissneskum stjórnvöldum hafi láðst, í gegnum kolefnisbókhald eða með öðrum leiðum, að magntaka losun gróðurhúsalofttegunda í landinu. Jafnframt að þeim hafi láðst að grípa til aðgerða í tæka tíð og með viðeigandi og samkvæmum hætti með lagalegri og stjórnarfarslegri umgjörð. Þessar röksemdir virðast mjög opnar fyrir túlkun. Hversu lagalega traustar eru þessar röksemdir?

„Eins og ég sagði þá tel ég að dómstóllinn í Strassborg hafi á óleyfilegan hátt blandað sér í hið lýðræðislega ferli í Sviss.“

Skrifaður af aðstoðarmönnum

Lengd dómsins er sláandi. PDF-útgáfa af honum er 260 síður. Fyrrverandi dómari sem ég leitaði álits hjá hélt því fram að dómur MDE hefði að megninu til verið skrifaður af aðstoðarmönnum dómaranna. Það kunni, ef það er rétt, að hafa haft áhrif á útkomuna.

„Svo kann að vera. Aðstoðarmenn virðast hafa mikil völd í Strassborg. En dómararnir kváðu upp dóminn og þeir vissu nákvæmlega hvað þeir voru að gera. Dómurinn er alltof langur. Hver hefur tíma, og löngun, til að lesa hann?“ spyr Baudenbacher, fv. dómari og meðeigandi í lögmannsstofunni Baudenbacher Kvernberg.

Alþjóðlegir dómstólar og þjóðríki

Aðgerðastefna fær byr í seglin

Baudenbacher var spurður hvort dómur MDE boðar það sem koma skal. Má búast við meiri aðgerðastefnu af hálfu alþjóðlegra dómstóla?

„Ég tel að ef alþjóðlegir dómstólar ganga of langt í þessa veru séu þeir að saga greinina sem þeir sitja á. Þegar ég var forseti EFTA-dómstólsins var ég sakaður um lagalega aðgerðastefnu í Noregi. Sérhver dómstóll gengur annað veifið lengra en lagabókstafurinn og lagavenjur segja til um. Mestu skiptir að þeir sem undir lögin heyra, þ.e.a.s. ríkin, og hæstiréttur í þeim ríkjum þegar alþjóðlegur dómstóll er annars vegar, fari að dómum. Það var t.d. tilvikið í dómi um ríkisábyrgð í máli Erlu Maríu. Hins vegar hefur EFTA-dómstóllinn líka fellt mjög varfærna dóma.“

Er dómstóllinn að taka sér meira vald yfir aðildarríkjum sínum en var upphaflega ráðgert? Er hann farinn að ganga á fullveldi ríkjanna?

„Í loftslagsmálinu er svarið já. Ég vil þó leggja áherslu á að ég hef alltaf komið MDE til varnar í grundvallaratriðum. Hann gegnir ekki aðeins mikilvægu hlutverki í hefðbundnum mannréttindalögum heldur einnig í að verja grundvallarréttindi í viðskiptum … Vinur minn Þór Vilhjálmsson tryggði, sem íslenskur dómari við EFTA-dómstólinn, að við gæfum grundvallarréttindum EES gaum.“

Höf.: Baldur Arnarson