Kynjamál hafa átt þátt í pólitísku umróti á Bretlandi

Umræður um kyn fólks hafa átt sinn þátt í því umróti sem orðið hefur í stjórnmálum í Skotlandi þó að fleira hafi komið til. Nicola Sturgeon hrökklaðist úr embætti fyrsta ráðherra Skotlands í fyrra og nú hefur eftirmaður hennar, Humza Yousaf, sagt af sér, en Skoski þjóðarflokkurinn, sem iðulega hefur verið nánast ósigrandi í Skotlandi, hefur fengið á sig mikið högg, meðal annars vegna þess að Sturgeon og Yousaf gengu fram af fólki með afstöðu til kynjanna. Liður í því var að setja svokölluð hatursorðræðulög þegar Yousaf var dómsmálaráðherra í ríkisstjórn Sturgeon en þau tóku ekki gildi fyrr en í nýliðnum apríl.

Með gildistöku laganna hefur verið heimilað að kæra fólk til lögreglu fyrir að segja hluti sem einhverjum þykja ekki boðlegir, svo sem að staðhæfa að karlmaður geti ekki orðið kvenmaður. Margir voru snöggir að nýta sér þennan möguleika vegna ýmissa ummæla sem þeim mislíkaði og bárust skosku lögreglunni um átta þúsund kærur fyrstu vikuna í apríl. Þessi viðleitni til að þagga niður í umræðu í landi þar sem tjáningarfrelsi hefur ríkt er verulegt áhyggjuefni, en mikilvægt er að minnast þess að tjáningarfrelsið er ekki hátt skrifað um allan heim þó að íbúar Vesturlanda hafi lengi tekið því sem gefnu og líklega af þeirri ástæðu verið værukærir í að verja það í seinni tíð.

Nú berast fréttir af því frá Bretlandi að breska heilbrigðiskerfið, NHS, hyggist taka þá afstöðu að kyn sé líffræðileg staðreynd, sem þykir merkileg stefnubreyting á tímum þegar staðreyndir sem þóttu sjálfsagðar fyrir skömmu hafa orðið að víkja fyrir sjónarmiðum sem hefðu áður þótt fjarstæðukennd og jafnvel óhugsandi.

Breska blaðið Telegraph segir frá því að í tillögu að stefnuyfirlýsingu heilbrigðisþjónustunnar þar í landi sé nú í fyrsta sinn gert ráð fyrir að banna trans konum að dvelja í sjúkrarýmum sem eingöngu eru ætluð konum, auk þess að gefa konum rétt á því að óska þess að fá kvenkyns lækni til að sinna viðkvæmri læknisþjónustu. Þá er ætlunin að snúa tungutakinu frá því sem orðið hefur eftir að pólitíski rétttrúnaðurinn náði tökum á NHS. Heilbrigðisráðherrann breski, Victoria Atkins, vill þannig með nýjum reglum meðal annars koma í veg fyrir að á sjúkrahúsum landsins sé rætt um „bringugjöf“ í stað þess að tala um brjóstagjöf eða um „fólk með leg“ í stað þess að tala einfaldlega um konur. Á síðustu árum hefur þróunin verið á hinn veginn og ljósmæður til að mynda fengið þær leiðbeiningar að tala kynhlutlaust við verðandi eða nýbakaðar mæður. Í stað þess að tala um brjóstamjólk eða móðurmjólk hefur þeim til dæmis verið uppálagt að tala um „mannamjólk“ (e. human milk).

Þetta minnir á ítrekaðar ádeilur rithöfundarins J.K. Rowling sem fann til að mynda að því fyrir nokkrum árum þegar talað var um „fólk sem hefði blæðingar“ til að forðast að nota orðið konur og gagnrýndi Yousaf, skömmu áður en hann féll sem fyrsti ráðherra Skotlands, fyrir að sýna konum „algera fyrirlitningu“ með því að tryggja að karlar sem skilgreini sig sem konur njóti sérstakrar verndar fyrrnefndra hatursorðræðulaga en konur ekki.

Telegraph segir að þeir sem berjist fyrir réttindum kvenna fagni fyrirhugaðri breytingu hjá NHS, sem feli í sér að konur þurfi ekki að deila sjúkrastofum með „sjúklingum af gagnstæðu líffræðilegu kyni“. Þeir telji að með breytingunni sé „snúið aftur til heilbrigðrar skynsemi og tímabærrar viðurkenningar á að velferð og öryggi kvenna skipti máli“.

Öll þessi umræða er á margan hátt sérkennileg en þróunin í Bretlandi að undanförnu er ef til vill til marks um að pendúll umræðunnar sé að sveiflast aftur frá þeim öfgum sem hún var komin í. Vonandi nær hann eðlilegu jafnvægi innan ekki of langs tíma þar sem réttindi allra eru virt en sérviska, staðleysur og yfirgangur ráða ekki för. Allir verða að fá að tjá sig og haga sér eða koma fram á þann hátt sem þeim hentar, en það mikilvæga frelsi verður eins og annað að takmarkast af frelsi annarra og réttindum. Yfirgangur er ekki rétta leiðin til að tryggja stöðu fámennra hópa í samfélaginu, en tillitssemi í þeirra garð er sjálfsögð. Vonandi geta aðrir, meðal annars Íslendingar, dregið lærdóm af þróuninni og umræðunni um þessi mál á Bretlandi.