Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Hröð tækniþróun á sér nú stað innan fiskeldis í átt að hringrásarhagkerfi þar sem bætt nýting skilar betri umgengni um náttúruna og aukinni þjóðhagslegri hagkvæmni. Eitt af merkilegustu verkefnum í þeim efnum eru tilraunir í Noregi með samþættingu þararæktar og laxeldis.
Fóður er einn stærsti kostnaðarliður í laxeldi og í Noregi fást fyrir hvert kíló af fóðri um 860 grömm af laxi, en þar eru framleidd um 1,3 milljónir tonna af laxi á ári. Hér á landi er framleiðslan í kringum 45 þúsund tonn og má því reikna með að fóðurþörfin sé hátt í 52 þúsund tonn.
Framleiðsla fóðurs, rétt eins og í öðrum búskap, krefst hráefnis og orku með tilheyrandi umhverfisáhrifum. Það er því óæskilegt að um helmingur næringarefna í laxafóðri glatast og dreifist um nærliggjandi svæði við sjókvíarnar. En hvað ef það væri hægt að nýta þessi næringarefni í aðra framleiðslu?
Það er einmitt spurningin sem norska nýsköpunarfyrirtækið Folla Alger AS leitar nú svars við í samstarfi við rannsóknarfyrirtækið SINTEF, fiskeldisfyrirtækið Cermaq, norska tækniháskólann NTNU og háskóla Norður-Noregs (Nord Universitet).
Að fóðri á ný?
Folla Alger hefur komið upp samþættri þararækt við sjókvíar Cermaq í Steigen í Noregi sem er milli Bodø í suðri og Lófót í norðri. Markmið ræktunarinnar er að athuga hvort þarinn geti nýtt það næringarefni sem laxinn nýtir ekki.
Fyrst um sinn er ætlunin að prófa búnaðinn sem nýttur er og gera þær umbætur sem nauðsynlegar eru. Samhliða prófunum er unnið að kortlagningu hvar sé best að stunda ræktunina, það er að segja hvenær á árinu og í hvaða fjarlægð frá sjókvíunum. Einnig er fylgst með áhrifunum sem ræktunin kann að hafa á heilbrigði laxins og ekki síst umhverfið þar sem ræktunin fer fram.
Á vef SINTEF kemur fram um verkefnið að tilraunirnar hófust vorið 2022 og hefur þegar komið í ljós að þararæktin hefur ekki merkjanleg áhrif á súrefnismettun umhverfis sjókvíarnar og að lífmassinn í sjókvíunum er nægur til þess að skila þaranum mikilvægum næringarefnum. Gert er ráð fyrir að hægt verði að byrja að slá þarann á þessu ári.
Þaraframleiðslan vekur sérstaka athygli því þari getur nýst í framleiðslu fóðurs fyrir eldisfisk og búfé. Þannig er ætlunin að bæta nýtingu þeirra næringarefna sem sett eru í hið dýra laxafóður. Ekki nóg með það, heldur bindur þarinn einnig koltvísýring sem minnkar kolefnisspor laxeldisins enn meira, sem þegar er með eitt lægsta kolefnisspor í framleiðslu próteins til manneldis.
Tilraunir gerðar á Íslandi
Framleiddur hefur verið þari hér á landi með slætti en aðeins tilraunir hafa verið gerðar með þararækt á Íslandi. Nordic Kelp, sem hefur gert tilraunir með ræktun beltisþara í Patreksfirði, hóf tilraunina vegna vaxtar laxeldis á Vestfjörðum með von um að þarinn myndi draga úr umhverfisáhrifum sjókvíaeldisins. Hafa stofnendur vísað til þess að þara-, skeldýra- og lindýrarækt gæti virkað sem náttúrulegt síukerfi fyrir úrgang sem fellur til við sjókvíaeldi.
Reynist svo að þararækt geti einnig nýst í fóðurgerð gæti slíkt skapað fjölda möguleika hér á landi en uppi er áform um að reisa á Íslandi gríðarstóra fóðurverksmiðju fyrir fiskeldi. Hafa Síldarvinnslan og BioMar unnið að því að skipuleggja uppbyggingu fóðurverksmiðju en Síldarvinnslan er framleiðandi fiskimjöls og lýsis sem er dýrasta hráefnið í fóðurgerð.
Við þetta bætast tilraunir vísindamanna við tækniháskólann NTNU sem hafa gert tilraunir með að nýta afskurð og annan afgang sem fellur til við vinnslu laxafurða í framleiðslu á laxamjöli og -lýsi.
Ljóst þykir að samþætt hringrásarkerfi í laxeldinu gæti skilað mun minna umhverfisspori sem og fleiri störfum auk umfangsmikils sparnaðar fyrir þjóðarbúið.