Jónasína Elísabet Halldórsdóttir fæddist í Borgarnesi 1. apríl 1946. Hún lést á dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi 22. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Halldór Júlíus Magnússon bifreiðarstjóri, f. 4. júlí 1907, d. 22. september 2000, og Steinunn Pálína Þorsteinsdóttir verkakona, f. 23. mars 1911, d. 25. júlí 2005. Steinunn og Halldór slitu samvistum 1956. Halldór kvæntist Guðnýju Björndóttur, f. 6. ágúst 1908, d. 9. desember 1991. Seinni sambýlismaður Steinunnar var Jóhannes Gunnarsson, f. 12. febrúar 1913, d. 13. júlí 2005.

Jónasína var yngst þriggja systra. Systur hennar voru: Kristín Júlía, f. 30. maí 1934, d. 24. maí 1987, gift Hauki Kristinssyni, f. 8. janúar 1931, d. 26. október 1993 og Þóra Magnea, f. 12. september 1936, gift Gísla Kristjánssyni, f. 21. apríl 1942, d. 1. desember 1993.

Jónasína giftist Sigurði Eiðssyni iðnverkamanni 20. maí 1967. Sigurður fæddist 19. desember 1936 og lést 15. janúar 2019. Börn þeirra eru: 1) Þorgerður, f. 1969, gift Ólafi Friðriki Ólafssyni, f. 1968. Synir þeirra eru Ólafur Bjarni, f. 17. mars 2000 og Einar Bragi, f. 18. desember 2005. Ólafur Bjarni er í sambúð með Nönnu Líf Kjartansdóttur, f. 2004 og á hann eina dóttur úr fyrra sambandi, Andríönu Mist, f. 4. Janúar 2020. 2) Eiður, f. 1974, kvæntur Genalyn Sigurðsson, f. 1990. 3) Halldór Steinar, f. 1976, kvæntur Ingibjörgu Ósk Sigurðardóttur, f 1974. Synir þeirra eru Sigurður Bjarmi, f. 22. september 2001, Tómas Orri, f. 9. október 2003, og Steinar Kári, f. 10. júní 2010.

Jónasína ólst upp í Borgarnesi og bjó þar nánast allt sitt líf. Við 10 ára aldur flutti Jónasína ásamt móður sinni til Reykjavíkur eftir að foreldrar hennar slitu samvistum. Þar bjuggu þær í eitt ár og gekk Jónasína í Vesturbæjarskóla. Jónasína lauk grunnskólagöngu sinni við Barnaskóla Borgarness. 18 ára fór hún í Húsmæðraskólann að Laugarvatni og var þar einn vetur.

Jónasína var í skátastarfi á yngri árum og var meðlimur í Svannasveitinni Fjólur, eldri kvenskáta í Borgarnesi, á fullorðinsárum. Hún var einnig meðlimur í Kvenfélagi Borgarness og sat m.a. í orlofsnefnd húsmæðra. Jónasína og Sigurður ferðuðust mikið um landið, þar á meðal með Verkalýðsfélagi Borgarness og Litla ferðafélaginu. Í seinni tíð ferðuðust þau meira erlendis, mest með Bændaferðum.

Jónasína vann sem verkakona alla sína tíð, lengst af hjá Vírneti hf. í Borgarnesi.

Útför Jónasínu fer fram frá Borgarneskirkju í dag, 2. maí 2024, klukkan 14.

Í dag kveðjum við elsku Jónu ömmusystur mína. Það verður skrítið að koma ekki við í Borgarnesi hjá Jónu í einn koss á kinn, hlýtt faðmlag og fréttir af allri fjölskyldunni. Jóna fylgdist vel með fólkinu sínu og elskaði að verja tíma með því. Hringdi oft til að fá fréttir af okkur, hún var svo stolt af hópnum sínum. Fyrstu minningar mínar eru frá Kjartansgötu 19 að leika við krakkana, borða kjötbollur í brúnni, lúra öll saman fyrir svefninn, bruna á þríhjólinu niður götuna, þau pössuðu vel upp á mig. Elsku Jóna mín vafði mig kærleik og ást, passaði upp á mig og gaf mér skjól. Alla tíð hef ég átt minn stað, mitt skjól, hjá Jónu og Sigga. Hafðu bestu þakkir fyrir allt og allt elsku Jóna mín, þú átt hluta af hjarta mínu. Nú ertu komin í faðm Sigga og þið farið að ferðast eins og þið elskuðuð að gera.

Minning þín lifir.

Elsku Gerða, Eiður, Halldór og fjölskyldur, ég sendi ykkur samúðarkveðjur.

Nú þögn er yfir þinni önd

og þrotinn lífsins kraftur

í samvistum á sæluströnd

við sjáumst bráðum aftur.

(Ingvar N. Pálsson)

Hafrún Bylgja og
fjölskylda.