Sókn Hafnfirðingurinn Einar Bragi Aðalsteinsson lyftir sér upp fyrir utan punktalínuna með Eyjamanninn Arnór Viðarsson fyrir framan sig í gær.
Sókn Hafnfirðingurinn Einar Bragi Aðalsteinsson lyftir sér upp fyrir utan punktalínuna með Eyjamanninn Arnór Viðarsson fyrir framan sig í gær. — Ljósmynd/Sigfús Gunnar
Mikil dramatík einkenndi fjórða leik ÍBV og FH í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í gær. Staðan í leiknum, þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi, var 29:29, og var þá önnur framlenging leiksins að hefjast

Handboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Mikil dramatík einkenndi fjórða leik ÍBV og FH í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Vestmannaeyjum í gær.

Staðan í leiknum, þegar blaðið fór í prentun í gærkvöldi, var 29:29, og var þá önnur framlenging leiksins að hefjast.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með og var staðan jöfn, 4:4, eftir tíu mínútna leik. Þá kom frábær kafli hjá Hafnfirðingum sem náðu fjögurra marka forskoti, 10:6, og Hafnfirðingar hefðu hæglega getað aukið forskot sitt ennþá frekar en fóru illa með nokkur dauðafæri. Eyjamönnum tókst að laga stöðuna og var staðan 14:11, FH í vil, í hálfleik.

Eyjamenn byrjuðu síðari hálfleikinn af miklum krafti og tókst að jafna metin í 17:17 eftir tíu mínútna leik í síðari hálfleik. Liðin skiptust á að skora eftir þetta en þegar 30 sekúndur voru til leiksloka kom Elmar Erlingsson Eyjamönnum yfir, 25:24, með marki úr vítakasti. Jón Bjarni Ólafsson jafnaði hins vegar metin fyrir Hafnfirðinga með síðasta skoti leiksins og því var gripið til framlengingar.

Þar voru það FH-ingar sem skoruðu fyrstu tvö mörk framlengingarinnar og komust í 27:25. Eyjamenn voru að elta alla framlenginguna og það var svo Daniel Vieira sem jafnaði metin fyrir ÍBV með lokaskotinu í 27:27.

Höf.: Bjarni Helgason