Basim Khandaqji
Basim Khandaqji
Palestínski rithöfundurinn Basim Khandaqji, sem hefur setið í ísraelsku fangelsi í tvo áratugi, hlaut nýverið virt arabísk bókmenntaverðlaun fyrir skáldsögu sína A Mask, the Colour of the Sky

Palestínski rithöfundurinn Basim Khandaqji, sem hefur setið í ísraelsku fangelsi í tvo áratugi, hlaut nýverið virt arabísk bókmenntaverðlaun fyrir skáldsögu sína A Mask, the Colour of the Sky. Líbanskur útgefandi hans tók við verðlaununum sem á ensku kallast International Prize for Arabic Fiction á athöfn í Abu Dhabi. Var bók hans valin úr 133 innsendum verkum.

Khandaqji fæddist á Vesturbakkanum, í borginni Nablus, árið 1983. Hann hafði skrifað smásögur þar til hann var handtekinn árið 2004, þá 21 árs. Hann var sakaður um að tengjast sprengjuárás í Tel Aviv og dæmdur í fangelsi þar sem hann hefur setið síðan.

Síðan þá hefur hann haldið áfram að skrifa innan veggja fangelsisins, gefið út nokkrar ljóðabækur og skáldsögur og lokið háskólanámi með aðstoð internetsins.