Örn Bergsson, eða Assi, fæddist 13. júní 1936. Hann lést 18. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Bergur Bjarnason, farmaður og vörubílstjóri, f. 21.7. 1894, d. 1988, í Stokkseyrarseli í Flóa, og Ingibjörg Jónsdóttir f. 14.10. 1901, d. 1993, á Flugu í Flóa.

Eiginkona hans var Svala Jónsdóttir frá Velli í Hvolhreppi, f. 30.3. 1938, dóttir Jóns Vals Gunnarssonar, bónda og organista, f. 12.11. 1909 á Velli, d. 1977, og Ingibjargar Jónsdóttur, bónda og húsmóður, f. 12.7. 1909 í Bolholti á Rangárvöllum, d. 1970.

Börn þeirra eru: 1) Valur, f. 8. janúar 1962, í sambúð med Elínu Perlu Kolka. 2) Halla Katrín, f. 14. júní 1964, gift Óskari Björnssyni. 3) Jón, f. 19. maí 1968, giftur Rósu Margréti Grétarsdóttur. 4) Ingibjörg, f. 25. desember 1969, gift Páli Jakob Malmberg. 5) Bergur, f. 10. mars 1976, giftur Þórhildi Sif Jónsdóttur.

Örn ólst upp á Holtsgötu í Hafnarfirði með bræðrum sínum þeim Jóni, eldri, sem er látinn, og Ólafi yngri bróður sínum.

Örn lærði skipasmíði í Dröfn og fékk meistarabréf í iðninni.

Hann var svo í Vitamálum og Straumsvík í nokkur ár, smíðaði sína eigin þriggja tonna trillu og fiskaði á henni í fjölda ára.

Hann keypti sér gröfu á níunda áratugnum og rak hana sem sjálfstæður atvinnurekandi í fjölda ára á höfuðborgarsvæðinu.

Örn var síðustu árin í Furu, við málmendurvinnslu og tækjarekstur. Keyrði einnig rútur með ferðamenn um landið í aukavinnu.

Svala og Örn byggðu sér hús í Lindarhvammi 24, nú Smárahvammur 6, í Hafnarfirði. Örn teiknaði sjálfur og byggði húsið, þau bjuggu þar frá 1962 allt þar til hann fluttist á Hrafnistu í maí 2022. Svala féll frá í júní 2016.

Örn var frá unglingsaldri virkur í skátahreyfingunni, var í Hjálparsveit skáta, flugbjörgunarsveitinni og svo í Sankti Georgs-gildinu til æviloka. Hann var mikið fyrir ferðalög og útilegur og voru margar fjallaferðir farnar með fjölskyldunni á Willys, rússajeppa og Ford Bronco, sem var í miklu uppáhaldi, frá níunda áratugnum fram á þessa öld. Hann gekk á fjöll og notaði einnig gönguskíði til að ferðast um fjöll á veturna.

Jarðsett verður frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 2. maí 2024, klukkan 13.

„Assi, æ ég meina Siggi, réttu mér þarna Moggann“ – þetta sagði pabbi minn sálugi stundum við mig, þá ruglaðist hann á næstelsta bróður sínum og mér, næstelsta syni sínum, eða mér Sigga Jóns.

Ég á margar minningar um föðurbróður minn Assa. Sérstaklega þegar hann keypti sér skurðgröfu og gerðist einyrki á henni. Við tókum að okkur verk saman og það var svo gaman að vinna með Assa.

Margar góðar minningar.

Ég sendi aðstandendum Assa innilegar samúðarkveðjur.

Sigurður Jónsson.