Bestur Kyle McLagan fékk fimm M í fyrstu fjórum leikjum Framara í bestu deildinni í aprílmánuði en Fram fékk aðeins tvö mörk á sig.
Bestur Kyle McLagan fékk fimm M í fyrstu fjórum leikjum Framara í bestu deildinni í aprílmánuði en Fram fékk aðeins tvö mörk á sig. — Ljósmynd/Kristinn Steinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Mér líður mjög vel og það er gott að vera kominn aftur á völlinn,“ sagði Kyle McLagan, varnarmaður Fram og leikmaður aprílmánaðar hjá Morgunblaðinu. „Ég nýt þess að spila fótbolta á nýjan leik og ánægjan er mikil eftir að hafa verið ansi lengi frá vegna meiðsla

Bestur

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

„Mér líður mjög vel og það er gott að vera kominn aftur á völlinn,“ sagði Kyle McLagan, varnarmaður Fram og leikmaður aprílmánaðar hjá Morgunblaðinu.

„Ég nýt þess að spila fótbolta á nýjan leik og ánægjan er mikil eftir að hafa verið ansi lengi frá vegna meiðsla. Það eru mjög spennandi hlutir í gangi hjá Fram þessa dagana og umhverfið er allt öðruvísi en þegar ég lék með liðinu seinnipart tímabilsins 2020 og svo tímabilið 2021.

Rúnar Kristinsson hefur líka komið mjög vel inn í þetta og hann kemur með ákveðinn hugsunarhátt og ákveða atvinnumennsku inn í þetta. Eins og þeir sem hafa fylgst með fyrstu leikjum okkar í sumar hafa séð þá erum við lið sem verður mjög erfitt að eiga við í sumar og ég hlakka til að halda áfram á sömu braut,“ sagði varnarmaðurinn.

Setti hausinn undir sig

McLagan gekk til liðs við Framara frá Íslands- og bikarmeisturum Víkings úr Reykjavík fyrir yfirstandandi tímabil eftir tvö tímabil í herbúðum liðsins en hann sleit krossband fyrir síðasta keppnistímabil og missti því af öllu tímabilinu.

„Þetta var mjög erfitt ár fyrir mig persónulega, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Lengi vel hugsaði ég af hverju þetta hefði komið fyrir mig og hvers vegna. Að endingu gat ég
ekkert annað gert en að sætta
mig við orðinn hlut og þá kom
ekkert annað til greina en að setja hausinn undir sig og setja allt á fullt í endurhæfinguna og að ná fullum bata.

Sumarið í Víkinni var líka mjög spennandi og skemmtilegt sem gerði þetta kannski ennþá meira svekkjandi. Ég endaði á að vera stuðningsmaður númer eitt, frekar en leikmaður, og þetta var því allt öðruvísi sumar fyrir mig en ég á að venjast. Ég lagði hart að mér til þess að komast á þann stað sem ég er á í dag og ég lærði á sama tíma mikið inn á sjálfan mig. Ég kem sterkari út úr þessu öllu.“

Sýn Rúnars heillaði

En af hverju ákvað varnarmaðurinn að ganga til liðs við Framara?

„Í fyrsta lagi leið mér mjög vel hjá Fram þegar ég lék með liðinu. Það er frábært fólk sem starfar í kringum félagið líka og það hjálpar alltaf til. Til að byrja með fékk ég skilaboð frá stjórnarmanni félagsins og ég ákvað að setjast niður með honum. Rúnar hafði svo samband við mig og það var í rauninni hann sem sannfærði mig um að skipta yfir.

Hann var með ákveðnar hugmyndir og framtíðarsýn fyrir félagið sem heillaði mig mikið. Planið núna er allt öðruvísi en þegar ég fór frá félaginu á sínum tíma. Verkefnið sem er í gangi í Úlfarsárdalnum heillaði mig mikið og þetta var rétt skref. Ég þurfti að spila eins mikið og mögulegt var, eftir meiðslin, og ég sá fyrir mér að spila 90 mínútur í hverjum einasta leik með liðinu.“

Áherslan á varnarleikinn

Rúnar Kristinsson tók við stjórnartaumunum hjá Frömurum í október á síðasta ári og er á sínu fyrsta tímabili með liðið.

„Það fyrsta sem hann sagði við okkur, þegar hann settist niður með okkur leikmönnunum fyrir tímabilið, var að Fram væri lið sem myndi alltaf skora mörk. Markmiðið til að byrja með væri því að leggja áherslu á varnarleikinn og í dag verjumst við sem ein heild. Það eru allir að leggja mikið á sig fyrir liðið og tilbúnir að berjast hver fyrir annan. Mörkin munu svo alltaf koma.

Rúnar er frábær þjálfari og það er ákveðin ára yfir honum. Leikmennirnir treysta honum fullkomlega og af því leiðir að við erum allir tilbúnir að fara í stríð fyrir hann. Hann veit upp á hár hvernig fótbolta hann vill spila og leikkerfið hentar leikmannahópnum mjög vel. Hann tekur stundum þátt í æfingunum með okkur og hann býr yfir ótrúlegum gæðum ennþá. Hann kann leikinn upp á 10 og það er því ekki annað hægt en að treysta honum.“

Sú besta á Íslandi í dag

Framarar léku í Safamýrinni þegar McLagan var síðast leikmaður liðsins en félagið flutti í nýjar höfuðstöðvar í Úlfarsárdal á síðustu leiktíð.

„Umgjörðin uppi í Úlfarsárdal er allt öðruvísi en í Safamýrinni. Það er ákveðið atvinnumannaumhverfi í kringum félagið í dag og þetta eru líklegast bestu aðstæður sem eru í boði á Íslandi í dag. Það hjálpar manni klárlega að mæta þarna á hverjum degi á æfingar, með þessa þjálfara, og þetta gefur manni aukna trú á verkefninu.

Við settum okkur engin föst markmið þannig séð fyrir tímabilið. Það var allavega aldrei sagt opinberlega á neinum fundi en Rúnar hefur aldrei endað neðar en í sjötta sæti þegar hann hefur stýrt íslensku liði og markmiðið, eins og staðan er í dag, er að vera í efri hluta deildarinnar. Að mínu mati erum við með lið sem getur unnið hvaða lið sem er á góðum degi og ég hef mikla trú á okkur fyrir sumarið,“ sagði Kyle McLagan í samtali við Morgunblaðið.