Baksvið
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Skáld og rithöfundar hafa lagt Morgunblaðinu til efni í þau 110 ár sem blaðið hefur komið út. Eru þær greinar og ljóð óteljandi, í blaðinu sjálfu og Lesbók.
„Mér er nær að halda að ég eigi heiðurinn af því að hafa tekið til birtingar í Morgunblaðinu fyrstu greinina, sem kom á prenti eftir Halldór Kiljan Laxness,“ segir Árni Óla blaðamaður í endurminningabók sinni Erill og ferill blaðamanns. Hún birtist 7. nóvember 1916 undir fyrirsögninni Gömul klukka og fjallaði um gamla forláta klukku sem var til í Laxnesi. Halldór var þá aðeins 14 ára (fæddur 23. apríl 1902) og skrifaði undir greinina H. Guðjónsson frá Laxnesi.
Greinin hefur lifað enda leyndi sér ekki að þarna væri á ferðinni verðandi ritsnillingur. Nóbelsskáld okkar Íslendinga.
„Til er klukka, sem átti fyr Ísleifur Einarsson etazráð á Brekku á Álftanesi, áður sýslumaður á Geitaskarði í Húnavatnssýslu. Mun hún hafa verið fengin hingað til lands á öndverðum síðasta fjórðung 18. aldar. Klukka þessi hefir fylgt ætt Í. E. nú um hundrað ár, utan nokkur ár. – Mun brátt að því vikið. Þess er víða getið, að ísleifur Einarsson var hugmaður og dugnaðar. – Unni hann framförum þjóðarinnar á öllum sviðum. Fyrsti endurbætti vefstóllinn kom hingað fyrir útvegun hans, sendur systur hans frá útlöndum. Sú kona var amma ömmu þess, er þetta ritar – Guðný Einarsdóttir að nafni.
Klukka þessi er að sögn ein hin fyrsta, er til landsins fluttist. Margt hefir á daga hennar drifið og frá mörgu gæti hún sagt hefði hún mál. Hún gæti nákvæmlega skýrt frá ýmsum atburðum úr lífi hins vaska lögmanns, er var aðal-andvígismaður Hundadagakonungsins, mannsins, er sagði: Skarphéðinn og postulinn Páll, það eru mínir menn, þess manns, er mat að jöfnu bæði líkams- og sálaratgerfi.“
Ekki er hér rúm til að endurbirta greinina í heild en það er ómaksins vert að lesa hana alla á timarit.is.
Halldór segir í greininni að komi maður inn á forngripasafn falli hugur hans í stafi við að standa augliti til auglitis við helgidóma fortíðarinnar.
Í lokaorðum lýsir Halldór sjálfri klukkunni. Gefum honum orðið:
„Klukkan er strengjaklukka; er á hæð 1,8 m. Rauðmálaður trékassi yzt. Smíðuð hjá Jamea Cowan í Edinburgh. Ártalið, nær hún var smíðuð, finst eigi letrað á hana. Skífan í ferhyrndri umgerð úr látúni; rósir og myndir stungnar í hornin. Ganglóðin tvö, hvort alt að 6 kg. að þyngd. Prýðilegur frágangur á verki – getur enst aðra eins æfi enn. Sýnir mánaðardaga og sekúndur, hefir sýnt tunglkomu; það verk nú bilað.“
Ólafur heitinn Ragnarsson bókaútgefandi fjallaði um greinina í Lesbók 2002. Hann sagði að þótt Halldór væri ungur væri Morgunblaðið þó yngra, aðeins þriggja ára.
„Þess má þó geta til gamans, að í viðtali við Jens Benediktsson í Morgunblaðinu 4. september 1946 ber þessa grein á góma og kveðst skáldið hafa haft af henni nokkra mæðu eftir að hún birtist því að „um skeið æptu jafnaldrar mínir þetta á eftir mér: Gamla klukka!“ segir Halldór.
Þennan dag í nóvember var Morgunblaðið einungis fjórar blaðsíður. Auk greinar Halldórs var m.a. að finna í blaðinu dómsmálafrétt, frétt um breskan línuveiðara sem þýskur kafbátur sökkti út af Austurlandi og svo auðvitað framhaldssöguna.
Nokkrar auglýsingar eru í blaðinu og er þessi athyglisverðust: „Sauðum og Dilkum úr Borgarfirði verður slátrað á Laugavegi 13, miðvikudaginn 8. og fimtudaginn 9. þessa mánaðar. Pantið slátur í tíma. Rvík 6. nóv. 1916. Gísli Jónsson.“
Árni Óla rifjaði upp að hann hefði fyrst hitt skáldið á ritstjórn Morgunblaðsins fyrir jólin 1926. Hann var nýkominn úr ferðalagi um Jökuldalsheiði, þar sem menn segja að hann hafi fundið Bjart í Sumarhúsum.
„Halldór var með svartan hund í eftirdragi, sem honum hafði áskotnast í þessari ferð. Valtýr (Stefánsson) spurði um nafn á hundinum. Hann heitir Hrappur Kiljan Laxness og ég ætla að setja hann til mennta, sagði skáldið.“ Þannig lýsir Árni Óla fundum þeirra.
Halldór sendi Morgunblaðinu af og til ljóð og greinar og birtist það efni flest í Lesbók.
Á seinni árum Halldórs var gott samband hans og Morgunblaðsins, ekki síst vegna vináttu Halldórs og Matthíasar Johannessen ritstjóra. Nóbelsskáldið skrifaði greinar í blaðið sem vöktu þjóðarathygli.
Hér skulu tvær nefndar. Greinin Hernaðurinn gegn landinu birtist 31. desember 1970. Og grein um hollustu bjórs birtist í Velvakanda 2. júní 1977. Það er ekki á hverjum degi sem Nóbelsskáld senda grein til birtingar í lesendadálki! Þessar greinar og annað efni Morgunblaðsins frá fyrri árum má finna á timarit.is
Þegar skáldið lést 8. febrúar 1998 var öll forsíða Morgunblaðsins lögð undir dánarfregnina. Hana ritaði Matthías Johannessen. Fyrirsögn var yfir þvera forsíðuna: Halldór Kiljan Laxness er allur. Klukkurnar hættar að tifa en skáldið lifir í verkum sínum.