Magnús Jónsson fæddist 19. febrúar 1948 í Reykjavík. Hann lést á Landspítalanum við Hringbraut þann 23. apríl 2024.

Magnús ólst upp að Bergstaðastræti 46 í Reykjavík. Foreldrar hans voru Jón Einarsson, f. 27. júlí 1912, d. 26. maí 1968 og Hólmfríður Kristjana Eyjólfsdóttir, f. 23. sept 1917, d. 13. júlí 2011. Systkini Magnúsar eru Eyjólfur Jónsson, f. 28. júní 1940, Björg Kristín Jónsdóttir, f. 15. desember 1942 og Einar Jónsson, f. 14. apríl 1950.

Magnús giftist Margréti Bertu Þórisdóttur, f. 2. júlí 1949, þann 27. febrúar árið 1971. Foreldrar Margrétar voru Þórir Daníelsson, f. 8. nóvember 1917, d. 30. september 2009, og Guðmunda Berta Alexandersdóttir, f. 11. mars 1926, d. 17. október 1999. Börn Magnúsar og Margrétar eru 1) Þórir, f. 8. júlí 1971. Hann er giftur Áslaugu Jónasdóttur, f. 26. nóvember 1968. Börn þeirra eru Margrét Vala, f. 1998 og Jónas Ingi, f. 2002. 2) Kristjana, f. 18. desember 1973. Sonur hennar er Kári Hrafn, f. 2018. 3) Birgir, f. 6. maí 1980. Hann er giftur Jonathan Ng, f. 5. ágúst 1985. 4) Bjarni, f. 6. maí 1980. Hann er giftur Helgu Guðmundsdóttur, f. 16. apríl 1982. Dætur þeirra eru Rósa, f. 2011, Sara Margrét, f. 2013 og Erla María, f. 2016.

Eftir hefðbundið nám við Miðbæjarskólann í Reykjavík hóf Magnús nám við Héraðsskólann á Eiðum. Magnús stundaði nám við Verzlunarskóla Íslands og lauk þaðan verslunarprófi árið 1965. Einnig fór hann til Englands í enskunám á þessum árum.

Magnús byrjaði ungur að starfa við hlið föður síns í vefnaðarvöruversluninni Vogue sem faðir hans stofnaði. Eftir lát föður síns tók hann við sem framkvæmdastjóri og sinnti því starfi til fjölda ára. Árið 1981 stofnuðu þau Magnús og Margrét gjafavöruheildverslunina Tímor sem þau ráku við góðan orðstír allt til ársins 2006-. Síðustu starfsár sín starfaði Magnús við bókhald hjá varahlutaversluninni Ósal ehf.

Magnús og Margrét bjuggu lengst af í Seljahverfi en hafa búið síðustu ár í Lundi í Kópavogi. Einnig áttu þau sitt annað heimili á Tenerife þar sem þau spiluðu golf og nutu lífsins í sólinni.

Útför Magnúsar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 2. maí 2024, klukkan 15.

Ég get ekki verið annað en þakklátur fyrir að hafa haft pabba með mér til þessa. Hann sem missti föður sinn svo snemma, um tvítugt. Eitt af því síðasta sem pabbi sagði við mig þegar ég spurði hann hvernig hann hefði það var „ég hef það fínt“. Hann hélt í húmorinn fram að hinstu stund enda var húmorinn alltaf hluti af hans karakter.

Það má segja að gildin hjá pabba hafi verið heiðarleiki, áræði og vinnusemi en hann kunni líka að njóta lífsins með ættingjum og vinum. Það eru verðug gildi til að lifa eftir og gott að fylgja í fótspor hans.

Hann og mamma héldu í febrúar upp á brúðkaupsafmælið sitt enda gift í 53 ár. Þau voru alla tíð náin og unnu saman í áratugi. Þetta gekk upp því þau unnu vel saman og bættu hvort annað upp og mynduðu sterka heild.

Eftir að þau seldu heildverslunina Tímor minnkuðu þau við sig vinnu og lögðu áherslu á að njóta lífsins, voru dugleg að ferðast, spiluðu mikið golf saman hér heima og á Tenerife þar sem þau undu sér vel. Pabba langaði aftur þangað, þó ekki væri nema í viku, en hann fékk því miður ekki þá ósk uppfyllta.

Mér fannst gott að spjalla við pabba og hef leitað ráða hjá honum og mun halda áfram að gera það á minn hátt. Ég mun hugsa til þess hvernig hann hefði brugðist við í ákveðnum aðstæðum, hvernig hann sá ákveðna hluti fyrir sér og hvað hann var framsýnn í mörgu. Hann var góð fyrirmynd fyrir okkur systkinin.

Elsku stelpurnar mínar sakna afa síns, þær hlökkuðu mikið til að vera aftur með afa og ömmu á Tenerife, fara saman í hringferð eða bara fara heim til þeirra í kósí. En það verður auðvitað yndislegt að fara áfram í heimsókn til ömmu. Afi hafði gefið sér svo góðan tíma til að setja saman skemmtileg myndbönd af stelpunum sem þær höfðu svo gaman af að horfa á með honum, aftur og aftur.

Það er svo margt sem mig langar að segja en fyrst og fremst sakna ég þín elsku pabbi.

Nú andar suðrið sæla vindum þýðum.

Á sjónum allar bárur smáar rísa

og flykkjast heim að fögru landi Ísa,

að fósturjarðar minnar strönd og hlíðum.

(Jónas Hallgrímsson)

Bjarni.