Helgi Snær Sigurðsson
helgisnaer@mbl.is
„Þetta er í rauninni bara lokaplatan, mér sýnist ég búinn að segja söguna sem ég ætlaði að segja,“ segir tónlistarmaðurinn Svavar Knútur Eysteinsson um breiðskífu sína Ahoy! Side B sem kom út fyrir fáeinum dögum. Platan er seinni hlutinn af Ahoy! Side A og um leið lokahluti fjögurra platna sögu, útskýrir Svavar. „Ég ætlaði bara að gefa út þrjár plötur en náði ekki að draga söguna saman á þriðju plötunni en það náðist á fjórðu.“
Saman mynda plöturnar fjórar eina sögu, sumsé. Og hver skyldi sú saga vera? „Hún er heimspekileg og sjálfsævisöguleg um ferðalagið frá ákveðnum punkti til þess að komast á réttan kjöl,“ svarar Svavar. „Þetta er bara ferðasaga, andleg og líkamleg. Verufræðileg. Fjölskylda og lífsviðburðir. Bara mannleg ferðasaga og svo klárast hún. Þessari sögu lýkur sem sagt með þessari plötu. Það verður bara nýtt upphaf, held ég.“
Líklega síðasta stúdíóplatan
– Þú varst sumsé ekki að meina, þegar við hófum samtalið, að þetta væri seinasta platan þín. Að þú værir bara hættur?
„Jú, líklega. Ég er ekki hættur að vera tónlistarmaður en þetta er líklega síðasta stúdíóplatan sem ég mun vinna að, þetta stendur ekki undir sér. Streymisveiturnar eru búnar að draga saman tekjur venjulegs listafólks af útgefinni tónlist, það stendur ekki undir kostnaði að fara í stúdíó og taka upp lag með hljómsveit. Það er bara gæluverkefni. Fólk getur gert það ef það á ekki krakka,“ svarar Svavar. Honum hafi, þrátt fyrir það, tekist að vera „bara“ tónlistarmaður býsna lengi.
– Er það ekki afrek, út af fyrir sig?
„Jú, það gefur ótrúlega mikið að finna að maður hefur náð að lifa af tónlistinni og vinna við hana. Það er ákveðinn hreinleiki, tærleiki, í því. Svo er þetta líka bara þrjóska, eldgömul og íslensk þrjóska. Svona hrúta-mentalítet,“ svarar Svavar.
– En hvað ertu að syngja um á þessari plötu?
„Þetta er náttúrlega seinni parturinn af Ahoy! Side A. Yrkisefnin eru sorgarferli, ný upphöf, barnið mitt … mörg laganna á A og B eru systkini, þau speglast þannig að Ahoy! Side B verður aldrei skoðuð nema sem seinni hlutinn af Side A. Það eru svo mörg lög sem talast á. Það eru tvö lög á B sem tala hvort við annað og tvö lög sem tala við lög á Side A,“ segir Svavar.
Hann er spurður að því hvort komi á undan, textinn eða lagið, og segir hann að í raun sé það hugsunin. Einhvers konar grunnhugsun sem krefjist þess að vera færð í orð. „Stundum er laglínan með hugsun sem vill fá að vera sögð,“ útskýrir Svavar.
Ómögulegheit
Svavar segir ákveðna sögu hafa byrjað með plötunni Kvöldvöku sem endi núna með þeirri nýju og síðustu. „Mikið af því sem ég hef verið að vinna almennt er bara sorgarferlið og það er dálítið fallegt að fá að vinna með sorgina.“
– Má ég spyrja hvað kom fyrir, hvað olli sorginni?
„Er það ekki bara hellingur af hlutum í lífi hverrar manneskju sem valda sorg og þannig brasi?“ svarar Svavar kíminn. „Það eru svo margir hlutir sem koma saman, föðurmissir og ýmislegt annað, vinamissir og manns eigin tilfinning um að vera ekki nógu góður, ómögulegheit. Svo er maður bara að reyna að lifa með sjálfum sér. Hvert sem maður fer situr maður alltaf uppi með sjálfan sig, er það ekki?“ spyr Svavar og blaðamaður svarar að jú, vissulega geri maður það.
Svavar segir mikilvægast sé að vera sáttur í eigin skinni. Að finna sáttina innra með sér. „Þetta er búið að vera svakalegt og skemmtilegt ferðalag, gríðarleg og skemmtileg vinna að finna sig,“ segir hann.
Svavar segir fólk gjarnan tengja sorgina við eitthvað slæmt þar sem hún tengist áföllum. Sorgin sé þó ekki slæm heldur meira í ætt við meðal. „Hún er eins og sárakrem,“ bendir Svavar á, „og hún skilar manni yfirleitt sem betri manneskju út í lífið. Það er alveg magnað.“
Opinn völlur framundan
Hvað þróun tónlistar með tilkomu veitna varðar segir Svavar ýmsar hættur nú steðja að. Til dæmis sé búið að setja tónlistinni skorður hvað lengd varðar, nú þurfi lög að vera sem allra styst. Nú þurfi þau að ná hlustandanum á 30 sekúndum og það tafarlaust. Annars eigi þau ekki erindi. „Svo er það þannig að tónlistarmenn mega eiginlega ekki lengur gefa út plötu sem heildarsögu, það verður alltaf að gefa út „single“ og lög verða að vera þrjár mínútur eða minna. Þannig að þessi söguhugsun tónlistarmannsins er farin,“ segir Svavar, ómyrkur í máli.
Hann segir plötuna lokapunkt á 15 ára ferli sem hófst með plötunni Kvöldvöku árið 2009. „Nú er opinn völlur framundan, ný saga og ný framtíð,“ segir Svavar og að titill plötunnar vísi líka til þess að nýr kafli sé að hefjast og nýjum veruleika heilsað.
Kall sem þurfti að berast langt
Hin kunnuglega upphrópun sjómanna í fyrri tíð, ahoj!, á sér auðvitað sögu, eins og Svavar bendir á. Menn hafi þurft að hrópa með slíkri hækkun til að hljóðið bærist sem lengst. „Þetta á rætur að rekja til umhverfisnauðsynjar,“ segir Svavar, blaðamanni til fróðleiks og nú lesendum Morgunblaðsins.
Útgáfutónleikar verða haldnir en ekki er ljóst, að svo stöddu, hvar þeir verða eða hvenær. Svavar veit, hins vegar, að ferðalagið hefst á meginlandi Evrópu. „Ég er að fara í Evróputúr núna, fer til Þýskalands og víðar,“ segir hann að lokum og blaðamaður óskar honum góðrar ferðar.