Mafía Tony Soprano er mafíuforinginn.
Mafía Tony Soprano er mafíuforinginn.
Stundum getur verið skemmtilegt að heimsækja aftur gamla „vini“ en undirrituð er dottin í The Sopranos sem gerðu það gott á árunum 1999 til 2007. Allar seríurnar eru nú komnar inn á Stöð 2 og ef þið hafið ekki áður horft eigið þið von á góðu

Ásdís Ásgeirsdóttir

Stundum getur verið skemmtilegt að heimsækja aftur gamla „vini“ en undirrituð er dottin í The Sopranos sem gerðu það gott á árunum 1999 til 2007. Allar seríurnar eru nú komnar inn á Stöð 2 og ef þið hafið ekki áður horft eigið þið von á góðu. Og svo má líka alltaf horfa aftur!

Í þáttunum er fylgst með mafíósum í New Jersey og fjölskyldum þeirra en þar er Tony Soprano fremstur í flokki, leikinn af James Gandolfini heitnum sem lést langt fyrir aldur fram. Tony þessi er óumdeildur foringi og vílar ekki fyrir sér morð og pyntingar, þótt hann láti yfirleitt aðra um skítverkin.

En Tony er líka mannlegur og þarf aldeilis að leysa vandamál fjölskyldunnar. Móðir hans er sérlega undirförul og ógeðfelld kona sem hann hefur sett á elliheimili, frændinn gamli reynir að koma honum fyrir kattarnef, og svo eru það vandamál í nærfjölskyldunni og hjá félögunum í mafíunni. Eftir ítrekuð kvíðaköst leitar hann til geðlæknis í leyni og deilir með henni sínum innstu hugsunum.

Ekki er að undra að þættirnir skuli fá 9,2 á IMDb; þeir eru snilldarlega vel leiknir og vel gerðir. Mafíósi með mannlega bresti getur alveg orðið „vinur“ manns. Mæli með hámhorfi; það er ávísun á góðar kvöldstundir.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir