Guðmann Reynir Hilmarsson fæddist 7. janúar 1961. Hann lést á líknardeild Landspítalans að morgni síðasta vetrardags, 24. apríl 2024, umvafinn sínu fólki, eftir erfið veikindi.

Foreldrar hans voru Hilmar Guðmannsson, f. 18.1. 1938, d.

26.12. 1961, og Ásthildur Fríða Sigurgeirsdóttir, f. 28.10. 1937, d. 5.9. 2012. Fósturfaðir Reynis var Eggert Andrésson, f. 17.8. 1933, d. 26.6. 2004. Albróðir Reynis er Óskar Arnar, f. 9.5. 1958, og hálfsystkini hans eru Salóme Inga, f. 17.6. 1963, og Eggert Bjarki, f 8.3. 1969.

Eiginkona Reynis er Hrönn Ægisdóttir, f. 15.1. 1961. Börn þeirra eru Hilmar, f. 10.7. 1980, og Þórey Erna, f. 28.4. 1984. Maki Hilmars er Hilda Karen Garðarsdóttir og eru börn þeirra Maríanna Sól, f. 2001, og Kolbeinn, f. 2014. Maki Þóreyjar er Ari Guðmundsson og eru börn þeirra Fransiska Mirra, f. 2005, Guðmundur Flóki, f. 2010, Jökull Reynir, f. 2017, og Embla Hrönn, f. 2022 d. 2022.

Reynir fæddist í Reykjavík en átti afa og ömmu, þau Regínu Sveinbjarnardóttur og Guðmann Ólafsson á Skálabrekku í Þingvallasveit, og kenndi hann sig alltaf við Skálabrekku. Þegar hann talaði um að fara heim fór hann austur á Skálabrekku. Þar naut hann þess að fara á vatnið og gekk í öll þau störf sem féllu til á meðan búskapur var þar.

Reynir lærði járnsmíði og vann við þá iðn í mörg ár, hjá Ístaki bæði í virkjunum og í gangagerð. Síðustu árin vann Reynir sem verkstjóri hjá Járni og blikki.

Bestu stundir Reynis voru með vinum og fjölskyldu. Hestaferðir, veiðiferðir og ferðalög um landið og erlendis voru hans áhugamál. Kunni hann vel að segja sögur, sama hvort þær voru sannar eða aðeins færðar í stílinn.

Reynir verður jarðsunginn frá Árbæjarkirkju í dag, 3. maí 2024, og hefst athöfnin klukkan 15.

Árið er 1978. Það er ball á Borg í Grímsnesi, við tvö hittumst þar og hófum okkar lífsdans saman aðeins 17 ára. Endalausar minningar streyma fram um þessi 46 ár.

Þú kvaddir síðasta vetrardag, þér líkt því sennilega hefur þú ætlað að skreppa á bak um kvöldið, eins og við vorum vön að gera með Helgu og Smára síðasta vetrardag.

Ég sit hér við borðstofuborðið sem þú smíðaðir af þinni alkunnu snilld, og horfi yfir það, hér komumst við öll fyrir og vel fór um alla. Þú svo sáttur við hópinn þinn, sagðir sögur og stríddir látlaust á meðan heilsan leyfði, en síðustu mánuði þegar fór að halla undan fæti þá sastu í sófanum og hlustaðir og komst með þín innlegg.

Aldrei bar skugga á sambandið okkar, og þó að lífið væri alls konar eins og hjá flestum, þá komumst við í gegnum skaflana, á ástinni, því hún var alltaf til staðar, og sú regla okkar að kveðja daginn og byrja daginn með kossi, gerði lífið með þér svo fallegt. Þetta var regla sem afi þinn og amma á Skálabrekku höfðu sem sið og við pössuðum upp á að hafa líka. Og þó að annað okkar væri ekki heima vegna vinnu annars staðar, þá brást það ekki að við töluðum saman og buðum góða nótt.

Þú með stríðnina að vopni, hver býður kærustunni sinni í bíltúr úti við Móakotsá, segir henni að loka augunum og opna munninn, sem hún gerir svo græn af ást, og í stað berja settir þú lambasparð upp í mig, fattaðir hvað þú hafðir gert, hljópst í burtu og baðst afsökunar á þessu. Ég notaði þetta óspart á þig, og fékk alls konar í gegn síðar meir ef ég hótaði að segja frá.

Þú reddaðir þér líka iðulega, við fórum til La Palma um jól, ég að vinna sem fararstjóri, þú ætlaðir að sjá um heimilishaldið, það væri ekki mikið mál. Fórst og spjallaðir við hótelstjórann, og við vorum komin í fullt fæði með öllu.

Keyptir Lapplander, settir dýnu aftur í hann, Hilmar og Þórey aldrei ánægðari og við fórum þvers og kruss um landið.

Við fórum til Grímseyjar sem var ógleymanleg ferð, því þú tókst þátt í getraun um kúluna í Grímsey, enginn vissi það en þú fékkst tveggja nátta ferð þangað, og auðvitað var það frábær ferð þar sem við kynntumst eyjarskeggjum.

Ég að þvælast um landið með hundinn í gönguferðum, þú gast ekki verið allan tímann, því þú þurftir að vinna. Held að það hafi stundum verið afsökun fyrir því að þurfa ekki að labba fjöll, því þér fannst það frekar fáránlegt að vera að fara upp á fjöll til að fara niður, en oft komstu með í lokin til að vera með í lokagleðinni.

Ferðalög voru okkar yndi síðustu árin, siglingar með stórkostlegum hóp. Hestaferðir um landið sem geyma endalausar sögur. Krakkarnir okkar og Þórsmörkin engu lík.

Og ferðahópurinn með Önnu og Guðna, lagt fyrir í hverjum mánuði og heimurinn skoðaður.

Síðastliðið sumar fórum við með næstum allan hópinn okkar til Spánar, við vissum öll að þetta var síðasta ferðin. Elsku kallinn minn, þessi tími okkar var ekki nógu langur, en við þökkum fyrir það sem við höfðum, og áfram mun ég segja sögur af þér, sannar eða lognar skiptir engu, því það er enginn eins og þú.

Þín

Hrönn (Hrönnsa).

Elsku pabbi, Guðmann Reynir Hilmarsson, lést á síðasta vetrardag snemma morguns. Við vissum hvert stefndi og verð ég ævinlega þakklát fyrir síðasta daginn okkar saman á líknardeildinni. Mamma sótti mig snemma úr vinnu og það var eins og þú vaknaðir til lífsins þegar við mæðgur mættum á svæðið. Dekruðum þig, kjöftuðum og þú varst svo ánægður að hafa okkur hjá þér.

Þú hefur alla tíð staðið við hlið mér eins og klettur, sama hvað gekk á, alltaf varstu mættur til að aðstoða mig. Yndislegur, sterkur og hvers manns hugljúfi. Ég gleymi því aldrei þegar ég fór í hjartaaðgerðina og neitaði að fara á Reykjalund í endurhæfingu. Þá hætti mamma að vinna heilt sumar til að vera með mér og þú sást um að halda öllu gangandi.

Þið keyptuð að sjálfsögðu sjónvarp með áföstu VHS-tæki inn á herbergið á spítalanum og við horfum á Friends saman öllum stundum, ég, þú, mamma og Hilmar.

Ef hádegismaturinn var ekki góður skutust þið mamma svo til skiptis í Skalla og létuð sérútbúa fyrir mig samlokur.

Þú tókst börnum hans Ara eins og þau væru þín barnabörn frá fyrsta degi og það verðum við Ari þér ævinlega þakklát fyrir. Þú fórst aldrei í manngreinarálit og það sem þú varst ánægður með hann Ara minn. Þú sást hvað hann gerði mig hamingjusama og þá var hann orðinn einn af þínum.

Við höfum náð að skapa svo margar minningar í gegnum veikindin þín saman að það er einhvern veginn súrsætt að kveðja þig, elsku pabbi minn. Ég er svo innilega þakklát guði fyrir að þú hafir ekki þurft að þjást lengur þrátt fyrir að ég hefði viljað hafa þig hjá mér um ókomna tíð.

Þegar við Ari misstum Emblu Hrönn okkar tókuð þið mamma, Hilmar og Hilda svo fast utan um okkur að það var áþreifanlegt. Allir lögðust á eitt um að koma okkur í gegnum þetta tímabil og ég mun aldrei gleyma því.

Þú ert fyrirmynd, elsku pabbi, ósérhlífinn, harðduglegur og það var engum sem líkaði illa við þig. Enda hef ég oft sagt við Ara eftir að við eignuðumst Klaka að þið mamma séuð bæði tvö með sama geðslag og vel uppalinn labrador. Alltaf glöð og kát og hugsið fram á veginn í stað þess að velta ykkur upp úr fortíðinni.

Ég mun halda minningu þinni á lofti og hugsa um mömmu eins og þú hugsaðir um mig. Þín allra besta,

Þórey Erna.

Elsku besti tengdapabbi, hvað þín verður sárt saknað. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur Þóreyju og varst alltaf boðinn og búinn til þess að aðstoða okkur í öllu, hvort sem það tengdist framkvæmdum, viðgerðum eða hverju sem við þurfum á að halda. Þú varst brunnur af visku sem við nýttum okkur óspart þegar við vorum með vangaveltur um hitt og þetta. Ég minnist þess þegar þú varst fyrstur á vettvang þegar við keyptum okkur saman fyrstu eignina. Þú komst oft beint eftir vinnu eða á frídögum þínum til þess að leiðbeina og aðstoða okkur við að setja nýja klæðningu á panilvegginn í herberginu hjá Guðmundi Flóka og einnig þegar veggofninn hjá okkur tók upp á því að leka. Þú tókst stjórnina og reddaðir nýjum ofni um leið og tengdir hann síðan sjálfur meðan ég fylgdist í lotningu með. Svona öðlingur varst þú, þú lagðir lykkju á leið þína til þess að aðstoða og þáðir ekkert fyrir það nema kannski einn bjór hér og þar.

Ég mun varðveita allar þær minningar sem við sköpuðum saman, ferðirnar í Þórsmörk, Spánarferðina síðasta sumar og allar þær stundir sem við nutum saman sem fjölskylda.

Þú og Hrönn voruð klettarnir í lífi okkar þegar við Þórey gengum í gegnum þann erfiða tíma að kveðja hana Emblu Hrönn og fyrir það verð ég ævinlega þakklátur og ég veit að hún tekur vel á móti þér.

Þinn uppáhaldstengdasonur,

Ari.