Steinunn Jóhannesdóttir
Steinunn Jóhannesdóttir
Katrín er öllum kostum búin sem prýða mega næsta forseta Íslands.

Steinunn Jóhannesdóttir

Ég var að kaupa miða á tónleika í Hallgrímskirkju á sjómannasunnudaginn fyrir ári. Í miðasölunni var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. Ástæðan var sú að einn sona Katrínar syngur í Drengjakór Reykjavíkur. Kórinn var ásamt Drengjakór Sofiu í Búlgaríu með tónleika í kirkjunni á Alþjóðlegri sönghátíð drengjakóra sem fram fór hér á landi í byrjun júní 2023. Og forsætisráðherra Íslands var þennan sjómannadag eins og hver önnur mamma í foreldrafélagi sem býður sig fram í það sem gera þarf. Og ég hugsaði: Í hvaða landi öðru gæti þetta gerst? Það var dásamlegt að vita af Katrínu í áheyrendahópnum meðan strákarnir í kórunum tveimur sungu allir saman „Austan kaldinn á oss blés“, þeir íslensku og hinir búlgörsku. Textaframburðurinn óaðfinnanlegur og krafturinn þrumandi, raddirnar ungar og fagrar.

Tvær valdakonur með framréttar hendur

Þetta var ekki í fyrsta skipti sem Katrín heillaði mig með framgöngu sinni. Það hefur hún margoft gert í hlutverki sínu sem stjórnmálaleiðtogi og þá fyrst og fremst sem forsætisráðherra. Og þar sem ég þekki hana lítið persónulega hafa kynni mín af henni fyrst og fremst verið í gegnum fjölmiðla, sem lengi hafa fylgt henni á opinberum vettvangi. Það var þannig í sjónvarpsfréttum (19. mars 2018) sem ég varð vitni að stórviðburði í sögu jafnréttisbaráttu kynjanna á alþjóðavísu. Myndavélarnar beindust að torgi framan við aðsetur kanslaraembættis Þýskalands í Berlín og út úr gestabíl steig Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra Íslands og gekk með framrétta hönd til móts við Angelu Merkel kanslara Þýskalands. Þarna mættust tveir þjóðarleiðtogar á rauðum dregli, eins og hefur gerst ótal sinnum bæði fyrr og síðar, en í þetta sinn voru það tvær konur! Tvær konur með framréttar hendur. Svona fréttamynd gleymir ekki kona sem stóð uppi á sviði á Lækjartorgi á Kvennafrídaginn 24. október 1975 og söng Áfram stelpur! Árið 1975 áttu einungis þrjár konur sæti á Alþingi Íslendinga af 60 þingmönnum. Fimm árum síðar var Vigdís kjörin forseti fyrst kvenna í heiminum í lýðræðislegum kosningum 1980. En ekki fyrr en 2009 varð Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra fyrst kvenna hérlendis. Katrín er önnur konan sem gegnt hefur embætti forsætisráðherra á Íslandi. Angela Merkel var hins vegar fyrsta og er enn eina konan til að hafa gegnt kanslaraembætti Þýskalands. Heiminn sárvantar fleiri konur í æðstu embætti.

Lifandi, klár, fersk og heillandi

Ég fæ enn gæsahúð þegar ég rifja upp þennan sögulega atburð sem sjónvarpað var frá Þýskalandi vorið 2018. Og ég fylltist gleði yfir því hve vel þessar tvær stjórnmálakonur og leiðtogar náðu saman og hversu klár, lifandi, fersk og heillandi okkar kona, Katrín, var á blaðamannafundum og öðrum viðburðum sem þær tóku báðar þátt í. Í ágúst 2019 þáði Angela Merkel boð Katrínar um opinbera heimsókn til Íslands og aftur virtust þær tvær ná saman eins og jafningjar, þótt Merkel væri fulltrúi þjóðar sem telur meira en 80 milljónir manna en Íslendingar séu innan við 400 þúsund. Það er meðal augljósra persónueinkenna Katrínar að koma fram sem jafningi hvort sem er æðstu leiðtoga á erlendri grundu eða sjálfboðaliða í foreldrafélagi syngjandi barna.

Katrín öllum kostum búin

Katrín Jakobsdóttir er í mínum augum öllum þeim kostum búin sem prýða mega næsta forseta Íslands. Reynsla hennar af því að fást við alvarleg og flókin mál er mikil og ómetanleg. Hún hefur stýrt þjóðarfleyinu gegnum óvænta erfiðleika, heimsfaraldur og náttúruhamfarir, sem ekki sér fyrir endann á. Með Katrínu í stafni getum við óhikað mætt stórum sem smáum viðburðum!

Höfundur er rithöfundur.

Höf.: Steinunn Jóhannesdóttir